Málning og Diet Coke á meðgöngu?

Spurning:
Sæl!
Ég er á 10. viku meðgöngu og stend í framkvæmdum. Ég mála með ýmiss konar efnum, flísalegg o.s.frv. Er í lagi að ég vinni með þessi efni?  Ég hef hingað til bara verið í nálægð við vatnleysanleg efni en nú líður að lökkun og þá fer maður að efast um hvort maður eigi að vera í snertingu við sumt af þessu. Önnur spurning sem ég hef velt fyrir mér… ég hef alltaf drukkið mikið af Diet Coke, það hefur verið mín koffínuppspretta. Svo las ég að of mikil aspartamneysla geti valdið fósturskemmdum. En þar sem ég er oft þreytt og slöpp eftir að meðgangan hófst þá hef ég verið að stelast til að drekka c.a. 2 Diet Coke á dag.  Er það í lagi eða telst það of mikið?  Takk kærlega fyrir frábæra síðu og fyrir að þið svarið spurningum sem þessum!

Svar:
Til að vernda fóstrið gegn áhrifum lífrænna leysiefna er ekki ráðlegt að vera í snertingu við eða anda að sér gufum af lífrænum leysiefnum eins og olíulakki og terpentínu. Slík efni berast yfir fylgjuna og geta haft skaðleg áhrif á þroska heila og tauga fóstursins.

Mikil inntaka sætuefnisins aspartame veldur taugafræðilegum skaða í fóstrum. En til að svo verði þarf að neyta ansi mikils af efninu. Talið er í lagi að neyta allt að 34mg/kíló á sólarhring af aspartame áður en vart verður fósturáhrifa. Í einum lítra af Diet Coke eru 260 mg. af aspartame. Drekkir þú einn lítra á dag ert þú því langt undir þeim mörkum sem talin eru fósturskemmandi. Sætuefnið asesulfam-K, sem einnig er í Diet Coke, er ekki talið hafa skaðleg áhrif á fóstur. Öðru máli gegnir um Sakkarín – það er mjög varhugavert á meðgöngu en er ekki til staðar í Kóki.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir