Mænudeyfing og lykkjan

Spurning:

Sæl Dagný.
Ég er með tvær spurningar til þín.

1) Get ég látið athuga hvort mænudeyfing sé möguleg fyrir mig? Ég á eitt barn, og gekk fæðingin mjög illa og hægt. Meðal annars var reynt að gefa mér mænudeyfingu, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir nokkurra lækna tókst þeim ekki að koma upp legg á réttan stað. Er hægt að athuga hvort eitthvað líkamlegt standi mænudeyfingu í vegi, eða hvort um klaufaskap læknanna var að ræða?

2) Hvenær á að láta taka lykkjuna ef ég hef í hyggju að verða ólétt? Ég er búin að vera með lykkjuna í 2 ár, en við hjónin ætlum að fara að reyna aftur fljótlega. Getur heimilislæknir tekið lykkjuna eða verð ég að fara til kvensjúkdómalæknis?

Með fyrirfram þökkum og von um skjót svör.

Svar:

Sæl.

1) Það geta legið mjög margar ástæður að baki þess að deyfingin tókst ekki hjá þér. Ef þú hefur t.d. fengið áverka á bakið eða þjáðst af hryggskekkju eða brjósklosi á þeim stað sem deyfingin er lögð getur það hindrað að hægt sé að renna nálinni milli hryggjarliðanna. Eins getur verið að illa hafi gengið að fá nægilega framsveigju á hrygginn til að koma nálinni inn og svo getur mikil offita hindrað að þetta gangi almennilega. Að auki þarf að vera alveg kyrr á meðan deyfingin er lögð og lítil hreyfing á viðkvæmu augnabliki getur spillt fyrir að deyfingin takist.

Ekki er venjan að gera rannsóknir til að athuga hvort hægt sé að leggja mænurótardeyfingu hjá barnshafandi konum því yfirleitt gengur það ágætlega. Enda er ekkert víst að þú þurfir svona deyfingu í næstu fæðingu því oftast gengur önnur fæðing mun hraðar og betur en sú fyrsta.

2) Þegar búið er að taka lykkjuna verður frjósemi þín strax söm og áður. Það er misjafnt hvort heimilislæknar gera kvenskoðanir og fjarlægja lykkju, talaðu bara við heimilislækninn þinn og kannaðu málið. Ef þú ert að huga að barneignum væri ekki úr vegi fyrir þig að byrja strax að taka fjölvítamín með a.m.k. 400 mg af fólíni því það er gott fyrir myndun hryggjar og taugakerfis hjá fóstrinu.

Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir