Megrun fyrir fegurðarsamkeppni

Spurning:

Sæll.

Málið er að ég tek þátt í fegurðarsamkeppni í apríl. Ég er í fínni þyngd og en mig langar að minnka ummálið á lærunum á mér aðeins meira.

Hvað á ég að borða? Er hægt að fá „matseðil“ sem ég get
fylgt eftir?

Bestu kveðjur með von um svar.

Svar:

Sæl.

Þú segist vera „í fínni þyngd”. Staðreyndin er sú að manneskja sem er í eðlilegri þyngd neyðist til að grípa til örþrifaráða til að léttast meira en eðlileg getur talist. Og því miður veit ég að stelpur sem hafa tekið þátt í fegurðarsamkeppnum hafa verið settar á stranga megrunarkúra. Að sjálfsögðu fordæmi ég slíkt alfarið enda ýta öfgakenndar neysluhegðanir undir heilsubrest og átröskunarvandamál. Þannig er ekki óalgengt að stelpur sem hafa „svelt” af sér nokkur kíló á stuttum tíma fyrir keppni bæta kílóunum fljótt á sig aftur þegar keppni líkur og gott betur. Með öðrum orðum: Offituvandi fer að gera vart við sig.

Ég vil hvetja þig til að huga vel að heilsunni og í því fellst meðal annars að borða fjölbreytt og nægilega mikið. Nánari upplýsingar er að finna í bók minni „Lífsþróttur – næringarfræði almennings” en þar má til að mynda finna margar hugmyndir að góðum matseðlum.

Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur