Megrunarmixtúra og brennslugel

Spurning:

Komdu sæll.

Hvað álit hefur næringarfræðingurinn á megrunarefnum sem hafa verið auglýst nokkuð upp á síðkastið. Annars vegar er um að ræða efni sem heitir „Biosculpt”. En hér er víst um einhvers konar næturmegrun að ræða. Og hins vegar er um að ræða efni sem ég sá nýverið í auglýsingu og kallast „Cutting Gel”, í auglýsingunni er fullyrt að hér sé á ferðinni öflugasta brennslugel sem völ er á.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Komdu sæl.

Að sjálfsögðu er hér um vita gagnslausar megrunarafurðir að ræða og sorglegt til að vita að fólk gleypi við þessari vitleysu. Það er þó enn sorglegra að söluaðilar efna sem þessara þykjast vinna af fagmennsku og bera hag viðskiptavina fyrir brjósti þó í reynd séu þeir reknir áfram af hreinni og klárri gróðafíkn. En sem dæmi má nefna að í auglýsingu um Biosculp segir að það tilheyri nýrri kynslóð grenningarefna!

Efni eins og Biosculpt eru að sjálfsögðu ekki ný af nálinni og í grein sem ber titilinn „Hálfnað verk þá hafið er: Ekki láta blekkjast” og er að finna í heilsutímaritinu Heilsupóstinum í júní, 1986, má m.a. lesa eftirfarandi: „Ranghugmynd: Það eru til ýmsar heilsumixtúrur og tæki á markaðnum sem brenna fitunni og hjálpa mér að grennast. Staðreynd: Það líður varla sá dagur að ekki komi eitthvað „nýtt og byltingarkennt” á markaðinn. Á meðan þessar vörur eiga að brenna fitunni er það í rauninni neytandinn sem brennir sig, því það eina sem léttist er veskið hans. Dæmi um slíkar vörur eru…pillur sem eiga að vera grennandi meðan þú sefur…”

Hvað varðar efnið „Cutting Gel” þá er fullyrt að hér sé um byltingarkennt gel að ræða sem smýgur djúpt inn í húðina og kemur hreyfingu á fituforða líkamans. Virkni þess er sögð vísindalega sönnuð. Þetta er að sjálfsögðu rakin ósannindi og ef fólk léttist á ákveðnum stöðum með að núa „cutting gelinu” á kropp sinn er það að sjálfsögðu til komið vegna þess að samhliða er dregið úr neyslu hitaeininga og/eða aukið við hreyfinguna. Eða eins og segir á einum stað í auglýsingunni: „Cutting Gel virkar þannig að það losar um fitu til að nota sem orku. Þú þarft að hjálpa til við að eyða þessari orku með því að hreyfa þig eða minnka kaloríuinntökuna.” það kemur einnig fram að 30 daga skammtur af þessu „töfrageli” kostar litlar 12.900 kr.

Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur.