Meira um Ripped Fuel

Er hættulegt að taka inn lyfið Ripped Fuel? (sjá eldri fyrirspurn)

Spurning:

Ágæti viðtakandi,

Ég las svar ykkar
við fyrirspurn varðandi Ripped Fuel og vildi gjarnan fá að segja
nokkur orð varðandi það.

Nú þekki ég sjálfur fólk sem notar Ripped Fuel og sem nemi í
heilbrigðisnámi hef ég verið spurður að því hvort það sé á
einhvern hátt varhugavert (ég vil taka það fram að ég nota það
ekki sjálfur). Ég varð því spenntur að lesa svar ykkar en verð
að segja að ég varð fyrir vonbrigðum. Einungis var fullyrt að það
væri smyglað efni og stórhættulegt og öllum ráðlagt að nota það
ekki. Engin rök voru færð fyrir því af hverju það er hættulegt,
ekki vitnað í greinar eða færðar fram einhvers konar staðreyndir.
Ég hef reynt að komast í einhverjar fræðilegar greinar um Ripped
Fuel (eða sams konar töflur) á Netinu en því miður lítið fundið.
Mér skilst þó að það sé samsett af efedríni, koffeini, gvarana
og ginseng. Augljóslega stafar aðalhættan af efedríni sem er ekki
ósvipað amfetamíni. Það stuðlar að losun noradrenalíns úr
taugasynöpsum og er talið vægt örvandi á miðtaugakerfi og er auk
þess B-agonisti og því örvandi fyrir hjarta- og æðakerfi.
Aukaverkanir eru svipaðar og við amfetamínnotkun nema langtum vægari.
Ég hefði því haldið að frábendingar ættu helst að gilda um fólk
með háþrýsting eða hjartabilanir. Auk þess má (augljóslega)
ekki nota efedrín samhliða MAO-hemjurum. Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna
hefur, að því er ég best veit, ekki bannað sölu á
„fæðubótarefnum sem innihalda efedrín. Þeir
skylda hins vegar framleiðendur til að vara fólk við áhættunni
sem fylgir neyslu þess á merkimiðum en að öðru leyti sýnist mér
sala þess vera frjáls. Nú eru Bandaríkjamenn þekktir fyrir
strangar kröfur til skráðra lyfja þar í landi og það bendir því
enn fremur til þess að efedrín sé ekki miklu hættulegra en mörg
önnur lyf sem fólk getur fengið án lyfseðils. Því get því
ekki séð af hverju fólk ætti „alls ekki að nota þetta efni.
Ekki er vitað um nema örfá dauðsföll sem hafa verið rakin til
efedríns og skipta notendur þess samt milljónum. Þá mætti alveg
eins banna önnur venjuleg lyf, sem læknar hafa gefið út lyfseðil
fyrir, sem í einstaka tilfellum geta verið álíka hættuleg. Að sjálfsögðu
er lyfið á bannlista hjá keppnisfólki þar sem það er mjög örvandi
og stuðlar að ójafnri samkeppni. Ég get ekki ímyndað mér að það
sé bannað vegna þess að íþróttaráð hafi áhyggjur af heilsu
keppnisfólks, sú ábyrgð hvílir á öðrum. Ég vil því setja út
á þær starfsaðferðir ykkar að svara spurningu lesanda órökstutt.
Mér finnst svar ykkar bera vott um fordóma og slíkt er orðið býsna
gamaldags á 21. öld. Ef þið viljið fá fólk ofan af því að
nota ripped fuel er amk. grunnforsenda að færa rök fyrir því af
hverju það er hættulegt. Nú vil ég hvorki fullyrða að Ripped
Fuel sé gott eða slæmt, ég álít mig sjálfan hlutlausan þar til
ég fæ í hendur staðreyndir um efnið. Ég yrði þakklátur, bæði
sjálfur og fyrir hönd almennings, ef þið gætuð endurskoðað
svar ykkar á hlutlægan hátt.

Með vinsemd og virðingu,
Áhugasamur.

Svar:

Framhaldssvar varðandi
spurningu um Ripped Fuel.

Varðandi
innihaldsefnin er þetta til í tveimur formum, sem hylki og sem duft.
Samkvæmt innihaldslýsingu á vefnum innihalda bæði formin koffein
og efedrín. Fyrir utan þessi tvö efni virðist um „hefðbundinn”
næringardrykk að ræða, séu upplýsingarnar á Netinu réttar (prótein,
amínósýrur, vítamín, steinefni og fl.)

Koffein og efedrín
eru lyf. Bæði þessi lyf eru örvandi og eru á bannlista Alþjóða
Ólympíunefndarinnar, bannflokkur IA (þ.e. í keppni). Það er ekki
algjört bann við notkun þeirra heldur má styrkur þeirra í þvagsýnum
ekki fara yfir ákveðin mörk.

Það eru tvær
meginástæður fyrir því að sum lyf eru bönnuð í íþróttum.

1.
Það samræmist ekki þeirri siðferðislegu forsendu í íþróttakeppni
að keppnin skuli fara fram á jafnréttisgrundvelli.

2.
Lyf getur leitt til heilsutjóns og jafnvel dauða, ekki síst
vegna þess að við misnotkun í íþróttum eru lyf sjaldnast notuð
samkvæmt fyrirmælum læknis og gjarnan í miklu stærri skömmtum en
þegar sömu lyf eru notuð til lækninga.

Sú staðreynd að
Ripped fuel innihaldi lyfið efedrin (og koffein) gerir það að
lyfi. Öll lyf þarf að skrá og fá markaðsleyfi fyrir þeim áður
en hægt er að fara að selja þau. Skráningarumsókn þurfa að
fylgja ítarleg gögn um verkun, aukaverkanir, eiturverkanir, framleiðslu,
framleiðanda og svo mætti lengi telja. Líklegt er að ekki séu til
fullnægjandi gögn til skráningar, nema hreinlega sé ekki áhugi á
að skrá lyfið hér. Hér á landi er efedrín aðeins í einu skráðu
lyfi.

Vegna þess að
lyfið er ekki skráð og ekki markaðsleyfi fyrir því er ólöglegt
að flytja það inn og selja það.
Þegar verið er að
skrá lyf og í skránigargögnum þess kemur í ljós að lyfið
hefur valdið dauðsföllum verða að vera sterk rök fyrir skráningu
þess. Ef t.d. lyfið hefur ekki mikla klíniska þýðingu eða að
til eru betri og öruggari lyf við sömu sjúkdómum/einkennum, er mjög
erfitt að réttlæta skráningu á því.

Það er vissulega
rétt að til eru miklu hættulegri lyf sem eru í notkun hér á Íslandi
og víðar. Þessi lyf eru jafnvel hin mestu eiturefni með miklum
aukaverkunum en eru þá notuð við erfiðum og jafnvel lífshættulegum
sjúkdómum s.s. krabbameini eða alnæmi.
Þar þykir réttlætanlegt að taka nokkra áhættu af notkun þessara
lyfja vegna þess að kostirnir eru meiri en gallarnir, þ.e. viðkomandi
sjúklingur gæti fengið bata en það getur vissulega kostar hann
mikil óþægindi á meðan á lyfjameðferiðnni stendur. Þegar
finnast betri og öruggari lyf er notkun hinna eldri og „hættulegri”
lyfja venjulega hætt og þau jafnvel afskráð.

Aukaverkanir efedríns
eru t.d.: aukinn hjartsláttur, kvíði, óróleiki, svefnleysi, skjálfti,
munnþurrkur, blóðflæði til útlima getur skaðast, háþrýstingur
og hjartsláttartruflanir. Við ofskömmtun geta komið fram
ofskynjanir, ofsjónir og geðveiki.

Efedrín
milliverkar líka við MAOI og getur valdið miklum háþrýstingi þannig
að hætta skapast fyrir viðkomandi. Aukning á hjartsláttartruflunum
getur orðið hjá sjúklingum á hjartaglýkósíðum, quinidíni og
þríhringlaga geðdeyfðarlyfjum. Fleira ber að varast sem ekki verður
talið upp hér. Til frekari upplýsingar um efedrín bendi ég á
t.d. Medline á netinu.

Í lýðræðisþjóðfélagi
eru lög og reglur settar svo þjóðfélagið geti rekið sig. Það
eru vissulega skiptar skoðanir um margt í lögunum. Ætla má að
flestir séu nokkuð sáttir við að hafa lög og reglur þó svo að
öll brjótum við þau einhvern tíma. Við förum yfir á rauðu ljósi,
borgum ekki RÚV o.s.fr. Það er okkur í sjálfsvald sett hvort við
lifum eftir lögunum eða brjótum þau og erum við þá tilbúin að
taka afleiðingunum, bæði hvað varðar lögbrotið sjálft og athöfnina
að brjóta lögin (oft eru lögin okkur til verndar), það er til dæmis
hættulegt að aka yfir á rauðu ljósi, það getur verið skaðlegt
að taka efedrín en reyndar er það að öllu hættulaust að borga
ekki afnotagjöld RÚV, skyldi maður ætla… eða hvað?

Með kveðju,
Jón Pétur
Einarsson, lyfjafræðingur