Með átröskun og vantar leiðbeiningar?

Spurning:
Til næringjarráðgjafa.
Kæru sérfræðingar! Ég er með spurningu í sambandi við aukningu og reglu á matarræði. Ég er með átröskun á byrjunarstigi og orðin langt leidd hvað varðar svelti og vantar því hjálp við að koma líkamanum í samt lag aftur.
Ég hef verið að borða ca 1000 kkcl á dag að meðaltali alveg síðan í sumar (fyrir utan nokkur átköst) og er því aðalatriðið hér að stækka magann og öðlast rétta brennslu á ný. Ég hef samt aldrei kastað upp eða slíkt, þannig að maginn er ekki í miklu ójafnvægi, en ég finn hvernig ég þoli ekki alveg að borða hvað sem er, ásamt því að ég er að verða geðveik á þembunni sem ég fæ við að borða og hægðartregðunni sem fylgir þessu. Líkaminn virðist vera farinn að vinna með mér í þessu, það er kominn með ýmsa varnarhætti, svo sem margra mánaða blæðingastopp og er hættur að sætta sig við að fá of mikið að borða, ásamt því að mér er gjarnan kalt.
Ég vil losna út úr þessum vítahring sem ég hef lent í, það er fara að borða meira og láta líkamann taka við því. Ég er á leið í viðtal til næringarráðgjafa og geri mér alveg grein fyrir því að ég sé líklega með mikinn næringarskort, en málið er að ég fer ekki fyrr en síðar og langaði mig því í smá ráðleggingar frá ykkur um hvernig ég eigi að fara að þessu þangað til þá
Svo ég gefi dæmi um hvað ég er að borða þá er það mjög einhæft. Matarlisti dagsins samanstendur ca af All bran, musli (án sykurs en með þurrkuðum ávöxtum) og létt ab mjólk, hrökkbrauð með kotasælu og grænmeti, kiwi og perur, skyr (hreint eða vanillu frá skyr.is), grænmetissalat með kotasælu og salsasósu. Á þessu lifi ég oftast, fyrir utan að ég elda mér einstaka sinnum fisk, fái mér fajita hveitiköku með skinku, osti og grænmeti eða lendi í að fara í matarboð eða fæ sykurþörf og borða þá eitthvað sætt. Ég borða allt í mjög litlum skömmtum þannig gott væri ef þið gætuð sagt mér ca hversu mikið af hverju ég ætti að borða… -er ég að borða of mikið af trefjafæðu?  Ég fæ allavega mikið loft í magann sem getur verið mjög leiðigjarnt. Hvað á ég að borða ef ég á að minnka trefjarnar? Mér finnst ég borða mjög hollt fæði og sé því ekki aðra leið en að þurfa þá að borða óhollara. Ég passa upp á að borða ekki hvítt hveiti, ger og sykur, er ekki rétt að halda því áfram? Ég er nýfarin að taka aloe vera safann sem búið er verið að auglýsa svo mikið í apótekum, hann á að róa uppþemdann maga og koma meltingu í lag, er ekki gott mál að halda áfram með hann? Endilega gefið mér einhver heillaráð um hvernig maður losnar við þessa þembu og hægðartregðu.
Ég reyni að hreyfa mig eins og ég get, hef farið út að hlaupa síðan í sumar og svo hef ég stundað ræktina í vetur ca 3 sinnum í viku. Ég vil hraða brennslunni en er ekki brennslan hjá mér í algeru lágmarki fyrst líkaminn er svona vannærður? Er þá hreyfingin eitthvað að hafa upp á sig? Ég er auðvitað mjög hrædd við að fitna þegar ég fer að borða meira og mun vilja hreyfa mig áfram, en er best að ég hætti því á meðan ég byggi upp næringuna eða haldi því við? Hreyfing er auðvitað góð fyrir þarmana.
Í sambandi við morgnana, þá er ég yfirleitt ekki svöng þegar ég vakna og byrja því hvern dag á aloe vera safanum og 1/2 ltr af vatni og borða svo eftir ca 1 klst. er þetta alveg út í hött hjá mér? Ég veit þetta er orðinn heljarinnar pistill en vona að þið getið eitthvað leiðbeint mér.
Með vona um hjálp í átt að bata, kveðja,

Svar:
Komdu sæl.

Ég vil hvetja þig til að leita þér aðstoðar hið fyrsta enda ljóst, miðað við þær heilsufarslegu og hegðunarlegu upplýsingar sem þú varpar fram í fyrirspurn þinni, að þú þjáist af átröskun á háu stigi. Þá nægir ekki að leita einvörðungu til næringarráðgjafa því vandinn er að stórum hluta sálræns eðlis. Ég vil hvetja þig til að ræða við þinn heimilislækni og segja honum satt og rétt frá stöðu mála og biðja hann um frekari leiðsögn um meðferðarúræði sem í boði eru fyrir fólk sem þjáist af alvarlegri átröskun.

Með kveðju og von um gott gengi,

Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur