Meðganga, mígreni og háþrýstingur

Spurning:

Halló.

Ég er ófrísk af mínu öðru barni og komin 22 vikur á leið. Ég er með mígreni og er mjög viðkvæm í höfði. Á síðustu meðgöngu minni var ég mjög góð í höfðinu og var næstum búin að gleyma því hvað það er að vera með höfuðverk. Nú er þetta hinsvegar alveg öfugt. Ég er alltaf með höfuðverk. Þetta er ekki mígreni, heldur þungur höfuðverkur sem ég vakna oftast með. Mér er ekki vel við að vera alltaf að taka paratabs, sem virkar heldur ekki kannski alveg eins og ég myndi vilja, en ég hins vegar á mjög erfitt með einbeitingu í þessu ástandi. Í síðustu viku gafst ég upp og fór í skoðun í mæðraverndinni og þá eru efri mörkin í blóðþrýstingi rokin úr of lágum, eða 105 upp í 150. Þá vildi læknirinn setja mig í veikindafrí í stað þess að gefa mér lyf og það svínvirkaði! Ég fann varla fyrir höfðinu á meðan ég gat hvílt mig að vild. Ég svaf líka alveg eins og ég gat og lá í hvíld voða mikið. Um leið og ég byrjaði að vinna aftur í gær er ég komin með þennan sama þunga höfuðverk aftur. Ég get ekki verið svona endalaust. Hvað er í lagi að ég taki verkjalyf (paratabs?) oft og í hversu langan tíma má ég gera það? Getur það haft skaðleg áhrif á litla barnið sem ég geng með?

Með fyrirfram þökk og von um hjálp.

Svar:

Til hamingju með barnið.

Miðað við ráðleggingar læknisins þá er sennilega best fyrir þig að taka því eins rólega og þú getur. Minnka álag og streitu eins mikið og hægt er. Það er engin þekkt áhætta af notkun parasetamóls á meðgöngu sé lyfið notað í ráðlögðum skömmtum. Þeir sem hafa skerta hjarta- eða nýrnastarfsemi og með lifrarsjúkdóm þurfa að gæta varúðar. Ef stærri skammtur er tekinn en ráðlagður hámarksskammtur á sólarhring (4000 mg eða 8 stk. af 500 mg töflum) er hætt við eiturverkunum. Sé vissa eða grunur um slíkt skal tafarlaust leita læknis.

Kveðja.
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur