Meðganga og hjartsláttur

Fyrirspurn:

Góðan daginn

Ég er komin 11.vikur á leið og undanfarið hef ég haft ótrúlega hraðan hjartslátt og oft er eins og hjartað detti úr takti.

Mér þykir þetta fremur óþægilegt og hef hrokkið upp þegar ég er að festa svefn við þetta,svo er stundum eins og hjartað taki rosalegan kipp, stór sláttur.

Getur þetta verið eðlilegt vegna aukins blóðflæðis um líkamann eða ætti ég að leita mér aðstoðar?

Er þá hægt að skoða þetta án þess að barnið finni fyrir því?

þetta er mín önnur meðganga en ég man ekki eftir þessu í þeirri fyrri.

með fyrirfram þökk.

svar:.

Sæl

Það er nokkuð um að ófrískar konur fynni fyrir þessu.  Hluti af því getur verið vegna aukins blóðflæðis og blóðmagns í líkamanum en ef þetta er að valda þér miklum óþægindum þá þarf að láta kíkja á þetta.  Oftast er þetta alveg saklaust, jafnar sig bara og hefur engin áhrif á barnið.  En fyrst einkennin eru þetta mikil skaltu láta kíkja á þig – þó ekki sé nema til að róa þig sjálfa.

Gangi þér vel!

Kristín Svala Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir