Meðganga: Samdráttur í legi á 21. viku

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er komin á 21. viku í annarri meðgöngu og hef verið að fá mikla samdrætti í legið af og til. Legið verður allt grjóthart og stundum hefur þetta varað í 3-4 klst. þrátt fyrir hvíld. Ég fæ enga verki með þessu en finnst þetta frekar óþægilegt og gerir mig svolítið stressaða. Í fyrri meðgöngu man ég eftir samdráttum en ekki svona snemma. Gera þessir samdrættir eitthvað, t.d. geta þeir verið upphaf fæðingar og hvað get ég merkt að svo sé þannig að ég geti leitað til fæðingadeildar í tíma? Ef þetta heldur áfram að koma þarf ég að hætta að vinna?

Bestu kveðjur.

Svar:

Sæl.

Það er leginu eðlilegt að dragast saman mörgum sinnum á dag alla meðgönguna. Yfirleitt finna konur lítið fyrir þessu en verða helst varar við þetta ef þær hreyfa sig snöggt eða er mál að pissa. Ef þessu fylgja engin óþægindi skaltu ekki vera að hafa áhyggjur. Ástæða þess að þú finnur meira fyrir þessu núna en í fyrri meðgöngu gæti verið að þú sért einfaldlega næmari á legið en síðast. Eins geta svona samdrættir tengst kalkskorti og jafnvel því að þú sért að reyna of mikið á þig. Stundum koma ótímabærir samdrættir í legið vegna leggangasýkingar eða blöðrubólgu. Ef þú hefur mikla útferð eða óþægindi við þvaglát þarftu að láta lækni líta á þig. Sama gildir ef þér finnst samdrættirnir fara vaxandi og þeim fylgja túrverkir. Í öllu falli er betra að láta skoða sig en að velkjast um í óöryggi. Ræddu við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni og sjáðu hvort hún leysir ekki úr þessu hjá þér.

Gangi þér vel.
Dagný Zoega, ljósmóðir