Mér líður illa og óttast fæðingarþunglyndi?

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er komin 7 mánuði á leið og hef síðustu vikur farið að
finna fyrir miklum leiða og aðgerðaleysi. Ég hef áður átt við þunglyndi að
stríða og er hrædd um að þetta sé merki um að ég fái fæðingarþunglyndi eftir
fæðinguna ef ég geri ekkert í þessu.

Ég á rosalega erfitt með að koma mér að verki og fæ mig aldrei til að fara að hitta fólk þó svo að ég viti að það er það er nauðsynlegt fyrir mig þar sem ég er frekar einangruð, búsett erlendis og er hvorki að vinna né í skóla.

Ég reyni að halda vanlíðan minni út af fyrir mig þar sem ég er hrædd við að sýna maka mínum of mikið hvernig mér líður þó svo að ég viti að hann skynji það.

Hann er nýhættur að drekka og því finnst mér enn meiri ástæða til þess að vera ekki að varpa mínum áhyggjum yfir á hann. Þetta er ekki það alvarlegt að
ég sé að vannæra barnið frekar borða ég of mikið og reyni að passa upp á að
borða hollt. Meðgangan hefur gengið vel þannig að orsökin fyrir vanlíðan
minni getur ekki legið í því.

Er þetta algengt hjá þunguðum konum? Geturðu gefið mér einhver uppbyggjandi ráð?

Það eru enskumælandi sálfræðingar hérna sem er kannski þess virði að spjalla við en það kostar auðvitað sitt.

Ég þakka fyrir og vona að þú getir svarað mér.

Svar:

Sæl.

Það er greinilega erfitt hjá þér svona einangruð og einmana. Það er alls ekki óalgengt að fæðingarþunglyndi byrji þegar á meðgöngu og mér finnst lýsingin þín passa við það. Það er nauðsynlegt að þú ræðir við manninn þinn um það hvernig þér líður. Honum er enginn greiði gerður með því að fela þetta því það kemur bara harkalegar niður á honum þegar barnið er fætt. Þú þarft stuðning við að takast á við þetta og hann er sá sem stendur þér næst.

Reyndu einnig að fá stuðning frá fjölskyldu þinni eða vinkonum, jafnvel þótt þú þurfir að hringja heim til Íslands af og til. Fólk er yfirleitt boðið og búið að hjálpa manni ef það veit að manni líður illa. Svo hefur þú væntanlega ljósmóður og lækni sem annast þig á meðgöngunni og þú skalt endilega tala um þetta við þau.

Það sem þú getur sjálf gert er að fara í klukkutíma gönguferð úti við á bjartasta tímanum, borða mikið af fiski og grænmeti og taka fjölvítamín. Einnig finnst mörgum gott að drekka te úr hindberjalaufi og það er bara gott fyrir meðgönguna. Slepptu því að drekka kaffi, svart te og kóladrykki og dragðu úr sykurneyslu. Svo má ekki gleyma því að samvera og samlíf með makanum bætir andlega líðan og því um að gera að nota allar fríar stundir til samveru. Reynið að finna upp á einhverju skemmtilegu til að gera saman eins og að fara í gönguferðir eða sund, sækja myndlistarsýningar og tónleika, stunda kynlíf og yfirleitt lifa lífinu. Það kostar að vísu heilmikið átak fyrir þig af því þú ert komin svo langt niður en biddu manninn þinn um að hjálpa þér af stað og þá gengur þetta betur.

Ef ekkert dugar og þér finnst þú bara sökkva dýpra niður í þunglyndið þarftu að tala við lækni. Stundum þarf að grípa til lyfja til að rétta við andlegu hliðina, þegar á meðgöngu. Þá eru notuð lyf sem eiga ekki að skaða barnið. Það er nauðsynlegt að þér batni sem fyrst svo þú getir notið meðgöngunnar og hafir eitthvað að gefa af sjálfri þér þegar barnið fæðist.

Vona að þetta fari allt vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir