Mig langar að komast í toppform

Spurning:

Kæra Ágústa.

Ég er 16 ára stelpa, 180 cm og 76 kg. Ég er sterk eftir aldri og æfi handbolta 7-10x í viku, þ.á.m. lyftingar, þolæfingar, styrktaræfingar o.fl.

Ég geng/hleyp á æfingar, hjóla mjög mikið á sumrin (5-10 km á dag), æfi
siglingar á sumrin (róður aðallega) og borða frekar hollt.

Mig langar að
léttast, auka snerpu, stökkkraft, handleggsvöðva o.fl. Ég á erfitt með
armbeyjur, mér er sagt að það sé vegna þess að ég æfði á píanó og svo er ég
líka með sinaskeiðabólgu í báðum úlnliðum. Þegar ég hleyp úti (3x í viku á
sumrin) finn ég til í hásinunum og líður því fljótt illa í fótunum þótt ég
sé alls ekki orðin þreytt.

Getur þú hjálpað mér?

Svar:

Sæl.

Þú virðist vera undir afar miklu þjálfunarálagi og myndi ég ráðleggja þér að auka það alls ekki.

Snerpu þjálfun bætirðu t.d. með sprettum en ég myndi benda þér á að tala við handboltaþjálfarann þinn um það hvernig þú bætir snerpu og stökkkraft. Þjálfarinn þinn þekkir þig og veit hvaða æfingar henta þér best auk þess sem snerpa og stökkkraftur eru lykilþættir í handboltaþjálfun.

Sinaskeiðabólgan og verkir í hásin benda til ofálags og á meðan það ástand varir er ástæða til að fara varlega og ofbjóða líkamanum ekki með of miklum æfingum.

Þú æfir mikið og þarft að borða hollan og fjölbreyttan mat. Hvað varðar að léttast þá finnst mér líklegt að ef þú sneiðir að mestu hjá sælgæti, kökum, snakki, gosi og álíka sætindum og feitmeti þá kemstu í toppform.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari