Mígreni og getnaðarvarnir

Sæl/l

Ég hef verið að fá mígrenisköst í u.þ.b. eitt ár. Ég er 20 ára og það er mikil saga um mígreni í fjölskyldu minni. Þegar ég greindist var ég á pillunni Mercilon og tel ég hana haft áhrif á þessi köst auk stress. Ég var búin að vera á pillunni í rúmlega ár áður en ég fékk mitt fyrsta kast (hafði aldrei svo ég viti fengið mígreni áður og fékk sjaldan hausverk). Ég fékk svokallað „hemiplegic migraine“ í fyrsta skiptið og svo fékk ég mígrenisköst (án fyrirboða) á þriggja vikna fresti frá september 2013-mars 2014. Og þessi köst voru allt frá 1 degi til 3 daga.
Mér var ráðlagt að prufa aðra pillu, sem ég gerði, en það gerði allt verra og ég fékk stórt mígreniskast.

Heimilislækninum mínum fannst ég of ung til þess að fara á brjóstapilluna, en kvensjúkdómalæknirinn minn vill að ég fari á hana frekar. Ég hætti á pillunni alveg og ég varð betri. Fékk þó líka Sumatriptan sem ég tek þegar ég finn fyrir kasti. Köstin komu sjaldnar en hættu þó ekki alveg, en ég fékk þrýstingshöfuðverki inn á milli. Ég fékk köst með ca. mánaðar millibili.
Svo ákvað ég að prufa hringinn í september sem hefur reynst mér vel hingað til. Nema hvað að núna finn ég fyrir auknum þrýstingshöfuðverkjum og ég veit ekki hvað ég á að gera…

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þú verður líklega bara að þreyfa þig svona áfram.  Prufaðu að hætta með hringinn og gáðu hvort þú verður betri eða ekki. Ef þú finnur mikinn mun þá verður þú að ákveða hvort sé betra fyrir þig, að vera á þessari getnaðarvörn með höfuðverkinn eða sleppa þessarri tegund og nota aðrar getnaðarvarnir t.d. smokkinn.

Ráðfærðu þig við þinn lækni

Gangi þér vel