Mikil svitamyndun sem truflar svefn

Spurning:

Sæl.

Mig langar til að kanna hvort til sé skýring á endalausri svitamyndun, allan sólarhringinn. Ég get ekki tengt það við nokkurn skapaðan hlut, er kannski verst á næturnar (næ hámark 2 tíma svefni eftir fyrsta svitakastið síðan næ ég að sofna jafnvel í 30 mínútur þegar næsta kast kemur). Þetta er mjög hvimleitt þar sem þetta er kaldur þvalur sviti og er búin að standa yfir í nokkra mánuði. Ég hef fengið lyf en þau gagnast ekki, þar sem svitamyndun getur einnig stafað af lyfjum sem notuð eru í þeim tilgangi að ná góðum svefni.

Þetta er það mikið að það krefst þess að það þurfi að skipta á rúmfötum. Er til einhver einföld skýring á þessu? Ég hef reynt allt mögulegt sem mér hefur verið bent á en kannski er eitthvað sem þið gætuð bent mér á. Ég hef fyllt út svefnskrá, en hún er ansi skrautleg, þegar maður skoðar hana kemur í ljós að hún er ekki í takt við þann svefn sem talinn er nauðsynlegur. Þá langar mig einnig að vita hvert maður snýr sér þegar svona skrautleg svefnskrá er til.

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Þú spyrð um ráð vegna mikillar svitamyndunar einkum á næturna, sem truflar svefn.

Erfitt er fyrir mig að ráðleggja þér að einhverju viti þar sem upplýsingar um aldur, heilsu og lyfjanotkun liggja ekki fyrir, en ég skal reyna.

Mismunandi er hversu mikið og oft fólk svitnar. Svitamyndun er ráð líkamans til að kæla sig og halda jöfnum líkamshita. Líkamshitinn sveiflast á taktfastan hátt eftir dægursveiflu líkamans. Þannig er líkamshitinn hæstur seinni part kvölds, en fyrri hluta nætur fellur hann fremur hratt og nær lágmarki seinni hluta nætur, en fer hækkandi jafnt og þétt fram á næsta kvöld. Þessa eðlilegu lækkun á líkamshita sést oft vel hjá börnum sem svitna eftir að þau sofna á kvöldin.

Ef heitt er í umhverfinu kælir líkaminn sig niður með svitamyndun. Hár hiti í svefnherbergi, veldur svitamyndun og truflar svefn ( sjá: Hvað get ég gert sjálf/ur).

Svitakóf sem iðulega eru verst á næturna og trufla svefn fylgja breytingaskeiði kvenna. Þessi svitakóf byrja að gera vart við sig á breytingaskeiði sem oftast er á árunum kringum fimmtugs aldur. Þau geta þó byrjað talsvert áður en breytingar verða á blæðingum. Hormónameðferð bætir þessi einkenni hjá talsverðum hluta kvenna.

Sviti getur verið vegna sýkinga í líkamanum. Algengast er að um sé að ræða þvagfærasýkingu eða öndunarfærasýkingu. Þvagfærasýking getur verið lúmsk og ekki gefið önnur einkenni en nætursvita og þreytu. Til að greina þvagfærasýkingu þarf að rækta úr þvagi. Öndunarfærasýkingum fylgir oftast hósti, uppgangur eða einkenni um skútabólgu.

Járnskorti og blóðleysi fylgir aukin svitamyndun. Algengasta orsök járnskorts hjá konum eru miklar blæðingar. Blæðingar frá meltingarvegi geta verið lúmskar en sjást sem blóð í hægðum eða svartar hægðir. Oftast fylgja önnur einkenni ef blæðir frá meltingarvegi t.d. breytingar á hægðum, verkir eða megrun. Stundum getur tapast blóð og járn gegnum blæðandi gyllinæð.

Kvíði og álag valda auknum svita og trufla svefn.

Kaffi veldur svita, hjartslætti og niðurgang.

Aukin svitamyndun og heitfengi verður við ofstarfsemi skjaldkirtils. Við ofstarfsemi stækkar kirtilinn framan á hálsinum. Hjartsláttur, megrun, niðurgangur, þreyta, geðsveifur, svefntruflanir eru önnur einkenni sem fylgja þessum sjúkdómi.

Lyf geta haft aukna svitamyndun sem aukaverkun, t.d. þunglyndislyf, geðlyf. Lyf sem hafa áhrif á líkamshita eins og t.d. verkja og bólgueyðandi lyf geta valdið svitamyndun. Lyf sem verka á móti kvenhormónum og eru notuð t.d. í meðferð brjóstakrabbameins valda svitakófum. Of háum skammti af skjaldkirtilslyfjum fylgir svitamyndun.

Ýmsum langvinnum og illkynja sjúkdómum fylgir sviti. Langoftast eru jafnframt önnur einkenni til staðar svo sem þreyta, megrun eða verkir.

Eins og þú sérð af ofantöldu er að mörgu að hyggja fyrir lækni ef sjúklingur eitar hans vegna svitakófa. Til að gera sér grein fyurir orsök þarf læknir að tala við og skoða viðkomandi til að geta greint orsök vandans.

Íhugaðu hvort eitthvað af ofantöldu gæti hugsanlega valdið einkennum þínum. Hafðu jafnframt í huga að ef engin önnur einkenni en svitaköst eru til staðar er sjaldnast ástæða til að óttast að eitthvað hættulegt búi að baki.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,
Bryndís Benediktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, sérsvið svefnrannsóknir