Mikill magi þrátt fyrir æfingar

Spurning:

Ég hef stundað mikla líkamsrækt t.d. spinnig, body pump og verið í tækjasal svo ca 4-6 sinnum í viku. Vandamálið er að ég er virðist ekki losna við magann. Vöðvarnir eru stífir en það eins og húðin verði að poka sem er alveg ferlega ljótt. Ég hef talað við reynda stelpu á stöðinni sem ég fer á og hún segir að þetta fari ekki burt nema það sé skorið. Er þetta rétt?

Kveðja
Ein áhugasöm

Svar:

Komdu sæl "áhugasöm"

Það er erfitt að svara þessu án þess að sjá hvað um ræðir og vita fleiri þætti sem skipta máli. Hve gömul ertu, hefurðu gengið með barn/börn? Hefurðu einhverntíma grennst hratt á skömmum tíma? Hve lengi hefur þú stundað þjálfun? Ef þú hefur svokallað epla" vaxtarlag, þ.e. að fitan sest mest á þig miðja er líklegasta skýringin að þarna sé um fitu að ræða. Ég tel litlar líkur á því að þú þurfir á skurðaðgerð að halda. Slíkt er yfirleitt ekki gert nema um mikil lýti sé að ræða og þá eftir að manneskja hefur grennst um tugi kílóa og húðin ekki náð að aðlagast. Líklegra þykir mér að um sé að ræða fitu sem situr eftir framan á kviðnum og til að losna við hana þarf sambland af styrktar- og þolæfingum og skynsamlegt fæðuval.
Þú virðist vera komin í fínt form og athugaðu að það er ekki skynsamlegt að hafa að markmiði að ná allri fitu af líkamanum. Konur þurfa ákveðið lágmarks fitumagn í líkamanum til að halda eðlilegri líkamsstarfssemi kvenlíkamans. Ef þetta er hinsvegar mikill "poki" eins og þú lýsir þá ættir þú að halda áfram að æfa eins og þú hefur gert og e.t.v. huga að því hvort þú getir dregið úr sætinda og fitu neyslu.

Kveðja, Ágústa