Mikill svimi

Góðan dag læknar!

Ég er búin að vera með svo mikinn svima í 3 til 4 vikur ( tek fram að ég er ekki ófrísk ) og þegar ég er uppí rúmi þá snýst herbergið eins og ég sé í hringekju, það skiptir engu máli hvenær ég fæ þetta þetta er alltaf jafn mikill svimi, er búin að láta hreinsa eyrun min en allt kemur fyrir ekki er með dropa fyrir eyrun, en ég er orðin svoldið hrædd um þetta, vegna þess að þetta er orðin svoldið langur tími. Með fyrirfram þökk,

Sigurveig .

 

Sæl Sigurveig

Ástæður fyrir svima geta verið fjölmargar og mikilvægt fyrir þig að komast að því hvað veldur í þínu tilfelli. Svimi er tiltölulega algengt einkenni og er mjög óþægilegur og alveg eðlilegt að hafa áhyggjur, en oftast er skýringin ekki alvarlegs eðlis. Það sem kallað er góðkynja stöðusvimi lýsir sér einmitt sem hringekjusvimi eins og þú lýsir og hér er ágætis útskýring frá háls-,nef-, og eyrnalækni á  því vandamáli. Aðrar mögulegar orsakir svima geta verið:

  • vöðvabólga í hálsi, herðum og bólga í hnakkafestum
  • álag
  • andleg vanlíðan
  • blóðþrýstingsfall
  • sykurfall
  • bólgur og sýkingar í innra eyra eða sjúkdómar í miðeyra
  • aukaverkanir lyfja

svo eitthvað sé nefnt.

Ef þú getur tengt þinn svima við eitthvað af þessum skýringum skaltu reyna að vinna með orsökina, annað hvort sjálf eða með því að leita til læknis, sjúkraþjálfara, sálfræðings eða þess aðila sem þú telur að geti hjálpað þér. Ef þú finnur ekki líklega skýringu hér skaltu leita til læknis og fá aðstoð við að finna og meðhöndla vandamálið.

Gangi þér vel