Miklir erfiðleikar í hjónabandi – hvað er til ráða?

Spurning:

Sæll.

Mér líður svo hræðilega illa. Það eru svo miklir erfiðleikar í hjónabandinu. Það virðist ekkert verahægt að gera. Við búum á stað þar sem er sama og engin þjónusta, þar að auki höfum við ekki efni á að fara til ráðgjafa.

Ég tek lyf, Anafranil. Maðurinn minn er svo harður og illur og reiður og uppgefinn. Samt getur hann haldið áfram, ég hins vegar hef íhugað að stytta líf mitt.

Ég á þrjú lítil börn og tvö fullorðin og einnig barnabörn. Ég er ekki heimsk, en ég er svo hrædd og þreytt og ein ég get ekki talað um þetta við neinn bara skrifað núna því þú sem lest þetta veist ekki hver ég er.

Það getur enginn talað við manninn minn, hann er bara þreyttur á mér og finnst ég aumingi. Ég drekk ekki, hef ekki drukkið í 20 ár og hætti að reykja fyrir 1/2 ári. Hann reykir ekki og getur drukkið í miklu hófi.

Ég hlýt að vera skelfilega eyðslusöm, því reikningarnir eru svo háir. Ég skil þetta samt ekki. Það er svo dýrt að versla í matinn og ég reyni svo sannarlega en tekst ekki. Yrði ekki bara betra fyrir hann að vera án mín. Ef eitthvað svo afdráttarlaust gerist hjálpar fólk. Við vorum bæði í öðru hjónabandi áður og ég get ekki gengið í gegn um annan skilnað.

Svar:

Heil og sæl og takk fyrir bréfið.

Ég sé á bréfinu þínu að það er margt sem hvílir á þér og ykkur, manninum þínum og fjölskyldunni.
Þú segir að þér líði illa, að erfiðleikar séu í hjónabandinu og að fjármálin séu í hnút. Nú þekki ég auðvitað ekki ykkar aðstæður en finn að þú kennir sjálfri þér um margt af því sem að er. Samt er maðurinn þinn harður og illur og reiður og uppgefinn eins og þú segir sjálf. Þú telur þig heldur ekki sjá neina leið út úr vandanum, hefur engan til að tala við og ert búinn að vera að velta því fyrir þér hvort lífið sé þess virði að lifa því.

Þess vegna vil ég byrja á því að segja þér að leiðin út er til.

Það er bara þannig að þegar maður er fastur í myrkum hugsunum, þá á maður svo erfitt með að sjá ljósið út úr myrkrinu, sérstaklega ef maður hefur engan til að tala við eins og þú segir sjálf.

Eins og ég segi, þá þekki ég ekki ykkar aðstæður, veit ekki hvað nákvæmlega er að eða hvar þið búið. En mig langar til að benda þér á nokkrar leiðir sem þú getur farið til að leita þér hjálpar og sem þið bæði, þú og maðurinn þinn, getið nýtt ykkur.

Ein leiðin er að hafa samband við prestinn ykkar og segja honum frá hvernig þér líður og hvernig ástandið er hjá ykkur . Ef þú átt erfitt með að tala við hann af einhverjum ástæðum, þá getur þú athugað með aðra presta í nágrenni við ykkur. Það kostar ekkert að leita til prestanna og þeir geta síðan leiðbeint ykkur og þér áfram.

Annað ráð er að hringja í fjölskylduþjónustu kirkjunnar, panta hjá þeim viðtal ef þú kemst til þeirra eða tala við ráðgjafa þar. Ég bendi á þetta því viðtalið kostar aðeins 1500 kr. þar sem þú segir að þið hafið ekki efni á ráðgjafa. Síminn þar er 5623600 og 5623635. Þarna eru sálfræðingar og fjölskylduráðgjafar sem gjarnan vilja hjálpa þér. Þarna fáið þið líka hjálp og leiðbeiningar varðandi fjármálin.

Þriðja leiðin er að hringja í vinalínu Rauða krossins ef þú þarft að tala við einhvern um líðan þína. Sími þeirra er 8006464.

Ef þú ert ákaflega langt niðri núna myndi ég líka benda þér á göngudeild geðdeildar Landspítala. Sími þar er 5601680. Þar vinnur frábært fólk sem skilur þinn vanda og ykkar og getur stutt ykkur.

Umfram allt, ekki gefast upp því þú átt svo mikið, börnin þín fimm og barnabörnin. Þeirra vegna og ykkar vegna skaltu strax hafa samband við einhverja af þeim aðilum sem ég nefni hér. Og þá um leið hefur þú stigi fyrsta skrefið til bjartari tíma.

Kær kveðja,
Sr. Þórhallur Heimisson.