Mismikil kynlífslöngun hjóna?

Spurning:
Halló.
Þannig er að ég og maðurinn minn eigum í vandræðum með kynlífið okkar. Við höfum búið saman í nær 15 ár og eigum tvö börn saman, annað á við ákveðna hegðunarerfiðleika að stíða og hitt hefur þurft að gjalda þess. Álagið á sambandið okkar er mikið þar sem ég er líka í háskólanámi. Honum finnst ég ekki sinna sér nógu mikið og finnst að sér sé hafnað og ekki nógu mikið kynlíf. Hann vill hafa kynlíf nokkrum sinnum í viku en ég er bara ekki alltaf tilbúin í það og því finnst honum að sér sé hafnað því þó svo að hann vinni langan vinnudag sé hann alltaf tilbúinn fyrir mig en ég ekki fyrir hann! Samband okkar hefur áður hangið á bláþræði en við náðum að rétta úr okkur. Þá var ég einnig komin með vott af þunglyndi og leitaði mér sálfræðiaðstoðar og tók mér frí einn vetur í skólanum. Hann tók það ekki í mál að koma með mér til sálfræðingsins þó svo að sálfræðingurinn færi fram á það að hitta hann líka til að heyra hvað hann hefði til málanna að leggja. Honum fannst ekkert vera að sér það væri ég sem þyrfti á hjálp að halda. Það er engin óhófleg drykkja eða neitt slíkt og við bæði mjög samviskusöm.
Ég er því að velta því fyrir mér hvort ég sé í rauninni að hafna honum án þess að gera mér grein fyrir því eða er hann með of miklar kröfur? Mér finnst að núna þegar ég er að byrja aftur í skólanum komi þetta sama vandamál upp aftur. Skólinn byrjar núna í september en ég hef verið að lesa undir próf sem ég ætla að taka núna í ágúst áður en skólinn byrjar. Getur einhver gefið mér ráð og hjálpað mér því mér finnst eins og sambandi mitt sé að bresta og hef áhyggjur af því að við munum skilja. Þegar okkur líður báðum svona illa lendir það því miður stundum á börnunum, að því leyti að við erum skapstygg og óþolinmóð.
Ein með brotið hjarta.

Svar:

Sæl.

Það er nokkuð algengt að þarfir hjóna, hvors um sig, fari ekki alveg saman í kynlífi. Einnig er ljóst að löngun til kynlífs helst vel í hendur við annað sem er að gerast í lífi einstaklinganna. Ég er því ekki á því að þú sért ómeðvitað að hafna manninum þínum kynferðislega eða að hann sé að gera ,,of miklar” kröfur til þín, svona almennt séð. Hins vegar getur verið að kröfur hans séu of miklar miðað við það álag, sem er á þér í augnablikinu. Þá á ég við að löngun þín til kynlífs getur verið minni nú vegna utanað komandi álags, en áður hefur verið. Ég veit ekki hvort ég lesi það rétt á milli línanna í bréfi þínu að álagið vegna barnanna lendi meira á þér en manni þínum, auk þess sem þú ert í námi. Ef svo er þá er þessi staða vel skiljanleg.

Þið verðið að tala saman um kynlíf ykkar. Það gengur ekki að hann upplifi höfnun eða að þú upplifir að þú verðir að sinna honum meira svo hann finni ekki til höfnunar, hvort sem þú hefur löngun til kynlífs eða ekki. Slíkt mun aðeins leiða til samskiptaerfiðleika ykkar á milli, sektarkenndar og reiði, sem síðan getur leitt til þess að þið fjarlægist.

Setjist niður í góðu tómi, ekki í framhaldi af erfiðleikum eða uppákomu á milli ykkar. Ræddu við hann um það álag, sem er á þér og óskaðu eftir skilningi hans á því. Segðu honum að þó þig langi ekki í kynlíf, hafi það ekkert með hann að gera, heldur snúist það um þína löngun og aðstæður í lífinu, sem hafa áhrif á hana. Kynlífslöngun byggir á manns eigin þörf en ekki á hinum aðilanum. Reynið síðan að finna út hvort þið getið ekki mæst á miðri leið og fundið út hvernig þið getið lifað kynlífi undir þessum kringumstæðum, sem er ásættanlegt fyrir ykkur bæði.

 

Gangi ykkur vel,

Sigtryggur.