Mismunandi aukaverkanir af sama lyfinu

Spurning:

Sælir og takk fyrir góða síðu.

Ég var að velta því fyrir mér hvort möguleiki sé að hægt sé að upplifa mismunandi aukaverkanir vegna sama lyfs en í sitthvoru formi? Þegar ég var greind með astma fyrir u.þ.b. 7 árum prófaði lungnasérfræðingurinn minn að láta mig á salbutamol í úðaformi. Eftir að hafa notað úðann 1-2 sinnum upplifði ég mikinn hjartslátt og skjálfta í höndum, svo slæmt að ég átti í erfiðleikum með að skrifa. Hann skipti því yfir í Ventolin í diski og fæ ég engar aukaverkanir af því. Samt er virka efnið það sama!! Er þetta eitthvað „plasma-effect" eða er möguleiki að þetta standist??

Kærar þakkir,

Svar:

Sæl

Skjálfti og hraður hjartsláttur eru vel þekktar aukaverkanir af salbútamól innúðalyfi (Ventolin) og reyndar líka af salbútamól innúðadufti (Ventolin Diskus). Það er vel mögulegt að mismunandi lyfjaform sama lyfs valdi mismunandi aukaverkunum hjá sama einstaklingi. Það sem einnig kann að vera raunin í þínu tilviki er að þessar aukaverkanir eru oft meiri í upphafi meðferðar og hjaðna síðan eða hætta alveg þegar á líður meðferð. Til að svara spurningu þinni betur þyrfti ég að vita meira um þitt tilfelli. Ég vona samt að þú sért einhverju nær.

Kveðja
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur