Mjólkurafurðir – höfuðverkur – flekkir?

Spurning:
Góðan dag, ég er hérna með spurningu fyrir næringarfræðing. Þannig er að ég gerði tilraun til að sleppa öllum mjólkuvörum vegna slæmsku í maga. Maginn lagaðist ekkert en ég tók eftir að ég var hætt að fá höfuðverk og hef því haldið mig frá mjólkurvörum síðan í febrúar á síðasta ári. Það sem angrar mig örlítið er að húðin og þá aðallega andlitið, er nánast alltaf rauðflekkótt. Ég hef líka tekið eftir að marblettir virðast vera lengur að jafna sig. Ég tek kalk, fjölvítamín og lýsi daglega en finnst einsog það hljóti að vanta eitthvað efni sem ég var vön að fá úr mjólkinni. Takk fyrir

Svar:

Komdu sæl.

Ég verð því miður að viðurkenna að ég get ekki fundið neitt samhengi á milli mjólkurneyslu og þeirra höfuðverkja sem þjökuðu þig áður en þú hættir að neita mjólkur-og mjólkurafurða. Ég get ekki heldur séð orsakasamband á milli þess að marblettir séu lengur að jafna sig eftir að þú hættir að leggja mjólkurafurðir þér til munns, ekki síst þar sem þú neytir kalks, fjölvítamíns og lýsis. Ég tel rétt að þú fá álit húðsjúkdómafræðings á mögulegum ástæðum fyrir rauðflekkóttu andliti og marblettunum og vegna magaslæmskunnar væri ekki úr vegi að fá álti meltingarsérfræðings.

 

Með kveðju,

Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur