Mjólkurmyndun vegna hormónarugls?

Spurning:
Komið þið sæl.
Mig langar til að álit hjá ykkur varðandi eftirfarandi. Þetta snýst um dóttir mína sem er tvítug. Hún hefur verið á pillunni (Mercilon) og haft mikla spennu í brjóstum sem okkur þykir ósköp eðlilegt. En það sem við erum ekki sáttar við að fyrir ca. 30 dögum byrjaði að leka úr brjóstunum á henni (mjólkurlitaður vökvi) og það svolítið mikið og hélt þetta áfram næstu daga. Verkirnir í brjóstunum voru orðnir svo miklir og nuddaði hún þau aðeins og þá bara bunar vökvinn út. Þetta er að mér finnst óhugnalega mikið þegar vökvinn sprautast eins og úr konu með barn á brjósti en hún hefur ekki eignast barn (reyndar misst fóstur ca. 10 vikna fyrir 2 árum).
Við búum í Danm og læknakerfið öðruvísi, þarf fyrst að fara til heimilislæknis og hann sendir áfram á sérfræðing telji hann þörf á. Hún fór til læknis fyrst fyrir ca 3 vikum og tók hann þungunarpróf sem var neikvætt. Þar sem mjólkin bara eykst stöðugt (sprautast meter út í loftið ef hún ýtir aðeins á það og það eru ekki ýkjur) fór ég með henni í gær aftur og það var aftur tekið þungunarpróf sem var neikvætt. Læknirinn sem var á vaktinni á okkar stofu var annar 32 ára kona. Hún gapti bara og sagðist aldrei hafa séð svona og fór yfir á næstu stofu til að fá ráð og hér koma þau: Tæmdu brjóstin í kvöld og vertu svo í þröngum brjóstahaldara í 14 daga.Gangi þetta ekki upp á hún að fá töflur til að þurrka upp mjólkina. Nú Daman verður reyndar á Íslandi eftir 14 daga svo hún á að mæta aðeins fyrr. Er þetta eðlilegt að fá svona mikla mjólk í brjóstin og hafa ekki einu sinni fætt barn? Er þörf á að sérfræðingur kíki á hana eða á hún bara að fara eftir því sem hefur verið sagt af heimilislækninum? Hver getur verið orsökin fyrir þessu? Vonandi getið þið leiðbeint mér hvað skal gera. Með fyrirfram þökk um einhver svör.
Áhyggjufulla Mamman

Svar:
Vökvamyndun í brjóstum er þekkt aukaverkun af pillunni (a.m.k. af Mercilon) en fremur sjaldgæf. Þó er rétt að hafa varann á því byrji kona að mjólka án þess að vera barnshafandi eða hafa fætt barn getur það bent til óeðlilegrar Prólaktínmyndunar, t.d. vegna brenglunar í starfsemi heiladinguls. Þess vegna þarf læknirinn að taka blóðprufu til að skoða þetta hormón og sjálfsagt væri réttast að dóttir þín notaði aðra getnaðarvörn um sinn þar til botn fæst í þetta. Hvað varðar leiðbeiningar læknisins eru þær ágætar fyrir konur sem eru að þurrka sig upp eftir barnsburð en óvíst að þær ráði við vandamálið ef mjólkurmyndunin er vegna lyfja eða hormónarugls. Ræðið aftur við lækninn ykkar og fáið hana til að athuga þetta betur.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir