Næ ekki að fá fullnægingu?

Spurning:
Góðan daginn.
Ég er stelpa um 18 ára og hef verið í tveimur langtímasamböndum. En nú kemur sú algenga spurning: Ég hef aldrei á ævinni fengið fullnægingu og hef enga löngun til kynlífs því mér finnst þetta ekki svo gott. Mér verður illt í snípnum eftir svolitla örvun og vil hætta strax! Hvað get ég gert? Er til eitthver sérstök uppskrift að fullnægingu kvenna? Ég er orðin mjög þreytt á þessu og vil fara að upplifa það skemmtilega og góða við kynlíf!!!!! 😉 Kær kveðja og von um svar 😉

Svar:

Sæl og blessuð!

Ég ætla að biðja þig að lesa fyrri svör mín samandi við fullnægingu hjá konum. Þar færðu líka einhver svör. Ég get þó sagt þér að er ekki til nein uppskrift að fullnægingu kvenna. Í raun er ekki mikið vitað um fjölbreytileika í kynsvörun (sexual response) kvenna m.a. vegna þess hve fyrirbærið er lítið rannsakað. Kynsvörun er það sem gerist í líkamanum við kynferðislega örvun. Ef hlustað er á kynferðislega reynslu kvenna kemur þó fljótt fram að flestar konur meta marga aðra þætti sambandsins sem álíka mikilvæga eða jafnvel mikilvægari en að fá kynferðislega fullnægingu. Það hljómar eins og þú hafir misst af öllu hinu sem líka hægt er að njóta í leit þinni að fullnægingunni! Það er alveg rétt hjá þér að hætta örvun á snípinn um leið og þú finnur til. Sársauki af því taginu hefur aldrei auðveldað neinni konu að fá fullnægingu. Kannski þarftu að fara að spá minna í hvað kynfærin aðhafast og fara meira að snúa þér að því hvar sálin er stödd og þá á ég t.d. við hvernig þér líður með sjálfa þig og hvað fær þig til að líða vel í þessu sambandi sem þú ert núna í. Ef þig virkilega langar til að fara að upplifa eitthvað ,,skemmtilegt og gott“ við kynlíf ráðlegg ég þér að byrja á því að hlusta meira eftir því hvað fær þig til að líða vel. Ef þú virðir það, þá ertu á góðri leið með að kynnast betri hliðum kynlífsins.

Kveðja, Jóna.