Náinn vinur í hassneyslu

Spurning:

Sæl

Það er eftir mikla og sársaukafulla umhugsun að ég læt verða af því að skrifa þér.
Þannig er mál með vexti að einstaklingur sem er mjög nákominn mér misnotar vímuefni, nánar tiltekið hass.

Ég er sjálf ekki meira á móti hassi en t.d. áfengi, neyti hvorugs í miklum mæli og sakna þess ekki þegar það er ekki til staðar. Hins vegar ræð ég ekki lengur við að horfa upp á viðkomandi aðila stjórnast af fíkninni eftir hassi. Ég hef reynt allt sem ég get til að ná til hans, fortölur, skynsemi, hótanir, samviskubitsmeðferð, einhvers konar samsekt… stundum örlar á skilningi og hann svarar eins og maður sem skilur en ekkert virkar.

Neyslan lýsir sér svona: Það er alltaf tími fyrir hass. Það er alltaf tilvalið tækifæri til að fá sér hass. Hass er hollt og gott og það er ekkert sem segir að fólk eigi ekki að neyta hass í sama mæli og t.d. vatns. Ef ekki eru til peningar fyrir hassi má alltaf fá lánað. Ef ekki er til hass má leggja hvað sem er á sig til að komast yfir það. Ef hvorki er hægt að komast yfir peninga né hass er lífið óbærilegt og það bitnar á hverjum sem vogar sér nálægt. Neyslan er samt ekki vandamál.

Nú vill svo til að viðkomandi hassneytandi er afskaplega vel gefinn og hefur meðal annars aflað sér æðri menntunar. Ég, sem er eina manneskjan í heiminum sem veit allan sannleikann um neysluna, var sjálf á þunglyndislyfjum í eitt ár og þykist að einhverju leyti skilja þörfina fyrir utanaðkomandi hjálp (í formi lyfja/vímuefna) þegar allt virðist ómögulegt. Hassneytandinn hefur, á góðri stundu, viðurkennt að hassið sé ,,geðlyfið hans“, en hann vill enga hjálp. Hann fullyrðir að ekkert sé að. Satt að segja er erfitt að finna út hvað er að. Honum er margt til lista lagt, hann á marga góða vini (þétt net neyslustuðningsmanna, en einnig aðra vini), hann á góða fjölskyldu og gengur þokkalega í vinnu/námi þó að neyslan setji ákveðið strik í reikninginn. Hann á ekki kynferðislega misnotkun að baki, hann er ekki í sjálfsmorðshugleiðingum, hann hefur ekki orðið fyrir ástvinamissi…

Ég hef leitað til áfengisráðgjafa til upplýsinga, það var á vissan hátt fræðandi fyrir mig, en hassneytandinn sjálfur vill enga hjálp þiggja. Geðlæknir kemur ekki til greina, meðferð kemur ekki til greina… hvað er til ráða?
Er hægt að senda fólk nauðugt viljugt í meðferð?
Þar sem neysla hans er, ólíkt áfengisneyslu, ólögleg, er ég hrædd um afleiðingarnar ef ég færi með þetta vandamál inn í kerfið.

Ég veit að þetta bréf er svolítið ruglingslegt, enda skrifað í hálfgerðri geðshræringu/uppgjöf. Vinsamlegast svarið mér eins fljótt og auðið er, sálarheill tveggja einstaklinga er í húfi.

Virðingarfyllst.

Svar:

Komdu sæl.

Ég skil sársauka þinn og vanlíðan. Það er mjög erfitt að horfa upp á nákominn einstakling stjórnast af fíkn, þannig að neyslan verði mikilvægari en allt annað. Eins og þú lýsir hegðun hans, þá virðist ljóst að fíknin ræður alloft ferðinni. Þú lýsir því þannig að þér finnist neysla hans vera vandamál, þótt honum finnist það ekki. Þú talar um að erfitt sé að finna orsökina. Það er enda illgerlegt fyrir þig að elta ólar við að reyna að skýra og skilja ástæðurnar fyrir neyslu hans. Óháð því hvernig neysla hans er tilkomin virðist hann hafa þróað með sér fíkn, sem viðheldur neyslumynstrinu.

Þú spyrð hvort hægt sé að senda fólk nauðugt viljugt í meðferð. Það er því aðeins hægt að viðkomandi teljist hættulegur sjálfum sér og öðrum og er þá um tímabundna nauðungar- innlögn að ræða. Ef halda á einstaklingi lengur en í nokkra daga í meðferð þarf síðan að svipta hann sjálfræði. Það hefur ekki þótt vænlegur kostur í meðferð áfengis- og vímuefnavandamála, þar sem mikilvægt er fyrir árangur að viðkomandi einstaklingur taki sjálfur ábyrgð á bata sínum.

Af lýsingu þinni get ég ekki annað ráðið en að þú hafir ágæta dómgreind. Það sem kemur þér úr jafnvægi er m.a. að hann sér hlutina í allt öðru ljósi en þú. Ef það skiptir hann svo miklu máli að geta reykt hass þegar honum sýnist, þá er hann ekki tilbúinn að hlusta á rök þín á móti neyslunni. Það er augljóst að ef hann skoðaði ástandið á gagnrýninn hátt og brygðist við niðurstöðunni, þá myndi ykkur báðum líða betur. En nú virðist sem hann sé ekki tilbúinn til þess sem stendur. Þú lýsir stöðu hans sem þokkalegri, þannig að hann getur e.t.v. haldið áfram enn um sinn án þess að finna verulega fyrir afleiðingum neyslunnar. En getur þú beðið eftir því? Mér virðist sem þú hafir þegar gert það sem í þínu valdi stendur til að fá hann til að taka á málunum, án árangurs. Það sem þá liggur næst fyrir er að þú íhugir hvað þú getur gert til að draga úr áhrifum neyslu hans á líf þitt og líðan? Mikilvægt er að þú farir að hugsa um þína eigin velferð í stað þess að reyna að hafa áhrif á hann? Það er auðveldara sagt en gert. Það eru ýmsir möguleikar fyrir þig til að fá hjálp. Á vímuefnameðferðardeildinni Teigi á Landspítalanum og hjá SÁÁ er boðið upp á viðtöl og námskeið fyrir aðstandendur áfengis- og vímuefnaneytenda. Þar fá þeir fræðslu um áhrif neyslunnar á aðstandendur og hjálp til að byrja að breyta líðan sinni og aðstæðum. Þar eru Al-Anon samtökin einnig kynnt, en þau geta verið aðstandendum mikill stuðningur, ekki síst ef fíkillinn heldur áfram neyslu sinni. Ef þér finnst of stórt skref að fara á slíkt námskeið eða á Al-Anon-fund, þá geturðu leitað aðstoðar sálfræðings til að skoða hvað þú vilt gera og hvernig þú getur smám saman tekið stjórnina á þinni eigin líðan. Reynslan sýnir að þegar aðstandendur fara að hegða sér í samræmi við eigin hugsanir og tilfinningar, þá hefur það ósjaldan áhrif á hinn fíkna, þannig að hann fer smám saman að sjá að afneitun hans dugar ekki lengur. Stundum verður þetta til að ýta á hann að gera eitthvað í sínum málum, en það sem mestu skiptir er að aðstandinn kemst út úr hjálparleysi sínu og tekur ábyrgð á eigin líðan. Þannig verður hann ekki eins háður hegðun hins fíkna og honum fer að líða betur.

Þú hefur þegar stigið fyrsta skrefið til að breyta með því að skrifa þessa fyrirspurn. Ég held að þú ættir að létta hulunni af þessu leyndarmáli og fara að tala við þá sem þú treystir (t.d. vini, fjölskyldu, vinnufélaga) um þessa hluti. Með því að þegja yfir þeim, þá styður þú hann óbeint í að halda áfram á sömu braut.

Ég óska þér góðs gengis.

Kær kveðja,
Ása Guðmundsdóttir, sálfræðingur.