Náttúrulega svefnlyfið Melatónín

Spurning:

Fyrir u.þ.b. 2 árum síðan fór ég að taka Melatónín til þess að geta sofnað á kvöldin. Ég hef alltaf átt í erfiðleikum með að sofna, alveg síðan ég var unglingur (jafnvel fyrr). Var alltaf 1-3 klst að sofna og náði oft ekki hinum mikilvæga djúpsvefni, þannig að ég vaknaði oft þreyttari en þegar ég fór að sofa. Þetta var farið að hafa áhrif á geðheilsu mína og var einn þátturinn í því að ég þjáðist af miklu þunglyndi fyrir 4 árum síðan (Þunglyndið byrjaði reyndar fyrst þegar ég var 22 ára en var mjög slæmt þarna fyrir 4 árum síðan. Ég er 32 ára). Ég var búin að prófa „venjulegar“ svefntöflur ávísaðar af læknum, áður en ég prófaði Melatónín, en þær reyndust mér ekki vel. Ég náði svo sem að sofna og sofa ágætlega en dagurinn á eftir var nánast ónýtur fyrir mér því ég var svo „gruggug“ allan daginn. Það var best ef ég tók bara 1/4 af töflunni. Mér finnst Melatónín hreinlega hafa bjargað lífi mínu, a.m.k. geðheilsunni. Loksins tekur það mig bara 1/2-1 klst. að sofna, ég næ djúpsvefni, er úthvíld að morgni og finn ekki fyrir því að vera "sloj" ("gruggug") allan daginn eftir. Ég tek það ekki á hverju kvöldi, bara þegar ég finn að ég þurfi þess.
Í gær var ég að lesa í fréttabréfinu að það er búið að gera könnun á aukaverkunum náttúrulyfja. Sagt er að fólk verði að átta sig á því að þau geti líka valdið aukaverkunum.

1. Ég hef nefnilega tekið eftir því að mér verður stundum (ekki alltaf) flökurt stuttu eftir að ég tek Melatónín.
2. Mér var sagt að þetta lyf geti valdið þunglyndi, er það satt? Ef svo er þá er það nú ekki mjög sniðugt fyrir mig.
3. Ég er að reyna að verða ófrísk og ekkert gengur. Hefur lyfið nokkur áhrif á frjósemi? Ég hef ekki heyrt um neitt slíkt en maður er alltaf að spá í hinu og þessu.
4. Eru einhverjar aðrar aukaverkanir sem ég ætti að vita um?

Með von og þakklæti um skjót svör,
Svefnengill

Svar:

Sæll Svefnengill.
Ég svara öllum spurningunum í einu. Fyrst vil ég benda á að ekki er talið æskilegt að taka Melatónín ef kona hyggur á barneignir, er barnshafandi eða er með barn á brjósti. Melatónín er náttúrulegt efni sem líkaminn seytir. Seytið virðist vera mest á aldrinum 1-7 ára og fer svo minnkandi, minnkar mjög skart við kynþroska. Efnið hefur hugsanlega áhrif á kynþroska. Svo virðist sem birtan stjórni að mestu seytun melatóníns (myrkur, þar af leiðir meira seyti).

Eina notkunin sem er vel staðfest að virki er notkun við svefntruflunum. Aukaverkanir eru yfirleitt litlar en geta verið einhverjar eins og t.d. þunglyndi.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur