nefrennsli og þurrkur í slímhúð eftir Covid.

Hvaða lyf er best við þurri slímhúð og nefrennsli.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Allmenn kvefeinkenni geta verið töluvert hvimleið og virðist vera að fólk geti verið lengi að losna við þau eftir Covid-19 smit. Því miður eru ekki til nein lyf sem þekkt er að geti stoppað þessi einkenni en þó eru til ýmsar leiðir til að gera þau bærilegri.

  • Saltvatnsdropar geta verið hjálplegir til að væta upp í þurri slímhúð ásamt því að þeir geta losað um seigt slím.
  • Ef nefrennslið stafar af nefstíflum getur verið hjálplegt að notast við nefsprey sem hægt er að fá ólyfseðilskyld í apóteki, athugið að fara þó varlega í að nota spreyin þar sem þau geta ýtt undir nefþurrk og ætti ekki að nota lengur en í 10 daga í senn.
  • Heit gufa getur hjálpað til við að losa um stíflur ef þær eru til staðar sem getur í kjölfarið minnkað nefrennslið, eins getur gufan verið góð fyrir þurra slímhúð
  • Huga að því að drekka vel af vatni yfir daginn til að stuðla að góðum vökvabúskap
  • Að sofa með hátt undir höfði getur dregið úr þrota í slímhúð
  • Nota mjúkar þurrkur til að sníta sér
  • Vaselín eða græðandi smyrsl við nasirnar getur dregið úr særindum sem fylgja því að þurrka sér um nefið oft.

Ef ekkert af ofantöldum ráðum virka og nefrennslið heldur áfram, ef verkir í ennis og kinnholum og/eða eyrum fara að gera vart við sig eða upp kemur hiti >38°C ráðlegg ég þér að leita til þíns heimilislæknis til frekari uppvinnslu og skoðunar.

Kær kveðja
Erla Guðlaug, Hjúkrunarfræðingur