Nefstíflur og brúnir blettir á meðgöngu

Spurning:

Sæl Dagný!

Ég er með tvær fyrirspurnir til þín.
1. Ég er komin rúma 3 mánuði á leið að öðru barni mínu. Ég hætti að reykja fyrir 7 vikum síðan og á svipuðum tíma byrjaði nefið á mér að stíflast á kvöldin þegar ég fer upp í rúm og og á nóttunni vakna ég oft vegna öndunarerfiðleika. Hefurðu einhverja skýringu á þessu og einhverjar ráðleggingar?

2. Þegar ég gekk með fyrra barnið mitt fékk ég brúna bletti á andlitið seint á meðgöngunni. Er eitthvað hægt að gera til að fyrirbyggja þetta?

Kær kveðja.

Svar:

Sæl.

Til hamingju með að vera hætt að reykja. Þú getur verið viss um að það borgar sig og þessar nefstíflur tengjast reykbindinu engan veginn. Það sem er líklega að gerast er að bjúgur verður í slímhúðinni í nefinu og veldur þessum stíflum. Þetta er tiltölulega algengt á meðgöngu og tengist hormónaáhrifum. Gættu þess að drekka vel af hreinu vatni og hækkaðu undir höfðinu þegar þú sefur. Eins er gott að hafa vel opinn glugga og hafa hátt rakastig í svefnherberginu. Ef þú átt í miklum vandræðum vegna þessa skaltu tala við lækninn þinn í mæðraverndinni. Stundum getur þurft að nota nefdropa til að sofa.

Hvað varðar brúnu blettina, þá er skýringin sú að litarefni húðarinnar er ljósnæmara á meðgöngu en annars og því geta sólböð orsakað að litarefnið „hleypur í kekki“ og brúnir blettir myndast. Til að forðast þetta skaltu sleppa sólböðum, nota góða sólvörn ef þú ert úti og jafnvel ganga með barðastóran hatt í sólskini..

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir