Neyðargetnaðarvörnin?

Spurning:
Hversu örugg er neyðargetnaðarvörnin? Getur verið að stelpa sem ég var með um daginn sé ólétt þrátt fyrir að hafa tekið neyðargetnaðarvörnina? Hversu lengi lifir sæðið?

Svar:
Hafi stúlkan tekið neyðargetnaðarvörnina á réttan hátt, þ.e. 2 töflur innan 72 klst. eftir óvarðar samfarir og aðrar 2 töflur 12 klst. eftir það, þá er frekar lítil hætta á að frjóvgun hafi átt sér stað – öryggið er um 96%. Þessi getnaðarvörn virkar líkt og pillan, þ.e. hindrar egglos og breytir slímhúð legsins þannig að hún verður óaðgengileg fyrir egg að taka sér bólfestu í, enda innihalda töflurnar sömu hormón nema í hærri styrk. Hafi konan verið með egglos um það leiti sem þið höfðuð samfarir er vitaskuld meiri hætta á að vörnin virki ekki og því er skynsamlegt að taka þungunarpróf eftir 2 vikur til að sjá að ekki hafi orðið frjóvgun. Ef frjóvgun hefur orðið geta engin lyf eytt fóstrinu en konan getur vitaskuld farið í fóstureyðingu innan 12 vikna frá síðustu blæðingum óski hún þess.

Sæði er fært um að frjóvga egg í allt að 3 sólarhringa eftir sáðlát en eggið lifir einungis í um sólarhring eftir egglos ef það nær ekki að frjóvgast. Strax eftir samruna eggs og sáðfrumu byrjar frumuskipting en eggið tekur sér ekki bólfestu í leginu fyrr en 3 dögum síðar.

Vonandi fer þetta allt á besta veg.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir