Niðurgangur eftir gallblöðrutöku?

Spurning:
Þannig er að fyrir tveimur árum var gallblaðran tekin úr mér. Í kjölfarið fékk ég sjaldgjæfan fylgikvilla þ.e. niðurgangur eftir hverja máltíð. Nú hef ég fengið lyf (Questran) sem ég tek til þess að hafa stjórn á þessu en það gengur ekki nógu vel. Spurningin er hvort hægt sé að gera aðgerð og þrengja opið á gallleiðaranum svo gallið renni ekki stöðugt niður í meltingarveginn? Með fyrirfram þökk

Svar:

Sæl.
Niðurgangur eftir gallblöðrutöku er vel þekkt vandamál sem tengist að einhverju leyti síflæði á galli til þarmanna þar sem gallblaðran er ekki lengur til staðar til að geyma gallið og seytra því eftir þörfum við máltíðir. Þetta vandamál lagast oftast með tímanum þegar aðlögun þarmanna hefur átt sér stað. Questran er oft reynt en það gagnast ekki öllum. Reyna má trefjaduft eins og Metamucil, Husk, Vi-Siblin og Colon Care sem fæst án lyfseðils í apótekum eða Heilsubúðum. Einnig má reyna Imodium töflur 1-2 á dag sem eru hægðastemmandi og fást á lyfseðils (10 stk). Engin skurðaðgerð á gallvegum kemur að gagni.
Bestu kveðjur, með von um að eitthvað af ofangreindu komi að gagni. Þú verður að prófa þig áfram og vonandi lagast þetta með tímanum.

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum