Níu mánaða og hjólbeinótt?

Spurning:
Halló.
Það er reyndar ekki alvarlegt mál sem mig langar að spyrja um en ég vona að það sé í lagi. Þannig er að dóttir mín byrjaði að ganga 9 mánaða og hún er orðin ansi hjólbeinótt, en nú er hún 12 mánaða. Hún er mjög grönn svo það sést vel. Sumir vilja auðvitað meina að þetta sé vegna þess að hún byrjaði að ganga svona snemma. (Hún var mjög lítið í göngugrind svo það hefur alveg örugglega ekki haft áhrif). Spurningin er því þessi: Er það rétt að börn geti orðið hjólbeinótt ef þau byrja mjög snemma að ganga eða eru þessi meintu tengsl ein af hinum mörgu álíka þjóðsögum? Og hvort sem það er ástæðan eða ekki, er líklegt að hún verði svona áfram? Eins og ég sagði er þetta svosem alls ekki alvarlegt mál, en ég er samt forvitin að vita svörin við þessum spurningum.
Með fyrirfram þökk,

Svar:

Það er mjög ólíklegt að börn verði hjólbeinótt af því að ganga snemma. Ég tel rétt að beinalæknir skoði stúlkuna því það geta verið undirliggjandi vandamál í beinum sem orsaka þetta.
 
Kveðja
Þórólfur Guðnason