Nokkrar spurningar á meðgöngu

Spurning:
Sæl og kærar þakkir fyrir frábæra síðu.
Ég er ólétt á 14. viku og hef nokkrar spurningar sem ég gjarnan vildi fá svör við. Ég hef fengið óvenju mikinn brjóstsviða sérstaklega eftir að ég borða, er eitthvað sem ég get gert eða borðað til þess að koma í veg fyrir hann? Er nauðsynlegt að taka fólínsýruna alla meðgönguna eða er það einungis í byrjun hennar sem það er talið betra? Ég er með of lágan blóðþrýsting, get ég gert eitthvað til þess að auka hann eða bæta það ástand (ég bý erlendis og ég fékk engin skýr svör hjá ljósmóður hér varðandi það)? Að lokum, ég tók að mér heimilislausan kött, er það ekki bara sandkassinn sem manni ber að halda sér í fjarlægð frá eða er það skaðlegt fóstrinu að einhverju leyti að hafa köttinn innandyra (hann er bólusettur og búið að skoða hann hjá dýralækni).
Bestu þakkir.

Svar:
Brjóstsviði er algengur fylgifiskur meðgöngu og oft erfitt að gera mikið við honum. Þó getur verið til bóta að forðast fitu, krydd, ávaxtasafa, gerbrauð, kaffi, te og gosdrykki. Mörgum finnst gott að drekka sódavatn en það þarf að vera í hófi (ekki meira en 1 líter á dag) því það getur brenglað söltin í líkamanum. Jógúrt og ostur getur einnig haft góð áhrif. Spearmint tyggjó er einnig af sumum talið gott við brjóstsviða. Gott er að hækka undir höfði þegar lagst er niður til að minna renni af magainnihaldi í vélindað.

Fólinsýran er mikilvægust fyrir fóstrið fyrstu 3 mánuðina en hún hefur einnig góð áhrif á blóðmyndunina hjá þér þannig að það er um að gera að taka hana áfram.

Það er nú alltaf betra að hafa lágan blóðþrýsting en of háan en ef þú finnur mikið fyrir þessu með þreytu og svima þá er besta ráðið að fara í góðar gönguferðir og synda. Það pumpar blóðinu vel út í æðakerfið.

Varðandi köttinn þá ætti þér að vera alveg óhætt að hafa hann inni ef fyllsta hreinlætis er gætt og þú kemur ekkert nálægt því að hreinsa upp eftir hann. Gættu þess einnig að hann klóri þig ekki því skaðlegar bakteríur geta leynst undir klónum.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir