Nokkur atriði í lok meðgöngu

Spurning:
Ég er á 37. viku meðgöngu og er farin að undirbúa mig undir fæðinguna. Ég er búsett erlendis og það er ekki hægt að lýsa því hvað þessi síða og ljósmóðirin hjá ykkur hefur hjálpað mér! Nú vantar mig að forvitnast um nokkur ,,loka“ atriði! Ég hef lesið að maður skuli setja saman lista yfir hvernig maður vill hafa viss atriði þegar að fæðingu kemur. Ekkert hefur verið rætt um þetta hér við mig, en atriði eins og stólpípa og hreinsun úr endaþarmi hef ég rekist á. Er það æskilegt og þægilegra að hreinsa út áður en að fæðingu kemur? Þar sem ég bý í klukkustundarkeyrslu frá sjúkrahúsinu, hvenær ætti ég að koma mér af stað til þess að vera örugg með tíma, hversu langt er á milli verkja t.d.? Ég verð að viðurkenna að ég hef verið mjög óheppin með ljósmóður og lítið um skýr svör – enda ætti hún að vera búin að svara þessu fyrir mig. Að lokum, er einhver töfraleið að koma fæðingu af stað ef það virðist ætla dragast og maður gengur langt yfir tímann!?
Með kærri kveðju og þökk fyrir frábæra hjálp!
Svar:

Mikið er gott að þú hefur haft svo góð not af síðunni okkar og svo sannarlega skal ég reyna að hjálpa þér einnig í þetta sinn.

Óskalisti fyrir fæðingu er mjög sniðugt tæki til að minna sjálfan sig og þá sem hjálpa manni í fæðingunni á hvað virkilega skiptir mann máli. Atriði eins og hver verður með manni og hvaða hlutverki hann á að gegna (halda í hendur, minna á slökunaröndun o.s.frv.), hvort maður vill úthreinsun fyrir fæðingu, hvort maður vill hafa tónlist og þá hvaða tónlist, hvaða verkjadeyfingu maður getur hugsað sér, hvaða stellingar maður vill prófa sig áfram með, hvort barnið á að koma í fangið á manni um leið og það fæðist, hver á að klippa á naflastrenginn og hvort barnið á að vera á brjósti eða ekki, er gott að hafa á listanum. Ýmislegt annað sem þér og manninum þínum dettur í hug og varðar ykkur sem par og verðandi foreldra skuluð þið einnig endilega setja á listann og svo takið þið hann með ykkur á fæðingardeildina og ræðið innihald hans við ljósmóðurina sem tekur á móti ykkur þar. Vitaskuld er ekki víst að hægt sé að fara eftir öllu á listanum því allar deildir hafa reglur og aðstæður geta verið þannig að ekki er hægt að verða við óskum. En það er um að gera að viðra þær.

Varðandi úthreinsunina þá finnst mörgum konum gott að vera búnar að hreinsast áður en að fæðingunni sjálfri kemur til að minnka líkur á að hægðir þrýstist út með barninu. Margar konur fá þó mjög lausar hægðir síðustu daga meðgöngu og hreinsast sjálfar. Svo er ekkert athugavert við það að losa hægðir í fæðingu og bara hið besta mál sem ljósmæður eru vanar að glíma við 😉

Hvenær þú ferð á fæðingardeildina fer töluvert eftir því hvernig fæðinguna ber að og hvernig þér líður sjálfri. Ef þetta er fyrsta barn þá máttu eiga von á að fæðingin taki drjúga stund og þá liggur ekkert á að fara á sjúkrahúsið fyrr en hríðar eru orðnar reglulegar, mínútu langar og 5 – 10 mínútur á milli þeirra. Ef vatnið fer hins vegar skaltu strax hringja í fæðingardeildina og ef kollurinn er ekki skorðaður í grindinni þarftu að leggjast niður og hringja á sjúkrabíl til að fara á fæðingardeildina. Það sama gildir ef fer að blæða. Hafðu við hendina símanúmerið á fæðingadeildinni og hjá sjúkrabílnum svo þú sért fljót að hringja.

Oft er fyrsti partur fæðingarinnar hálf leiðinlegur með missterkum hríðum sem líður mislangt á milli, en þær geta samt sem áður verið sárar og þú ekki náð að hvílast almennilega með þeim. Þá getur verið gott að slaka á í baði (ekki heitara en 38°C), fá nudd á bakið með sturtuhausnum eða mjúkum, olíubornum höndum og rugga sér í mjöðmunum eða skríða. Reyna svo að slaka á eða sofna á milli. Gættu þess einnig að drekka vel alla fæðinguna og borða ef þú treystir þér til. Þegar hríðarnar eru orðnar svo sterkar að þú þarft að einbeita þér til að komast fram úr þeim er tímabært að heyra í ljósmóður á fæðingadeildinni, ef ekki fyrr. Eins skaltu ekki hika við að hringja ef þú ert eitthvað óörugg, þér líður ekki eins og þú telur eðlilegt, ef barnið hreyfir sig minna, ef vatn fer að renna eða það fer að blæða. Það er eðlilegt að það gangi niður heilmikið slím og stundum er smá blóð í því en það er ekki eðlilegt að það komi fersk blæðing nema í mjög litlu magni.

Það eru því miður ekki til neinar töfralausnir til að komast í gang en ef leghálsinn er farinn að mýkjast og líkaminn er orðinn móttækilegur fyrir hríðarhormónum getur hjálpað að nudda brjóstin eða sjúga þau mjúklega og hafa góðar samfarir þar sem bæði fá fullnægingu og maðurinn losar sæði upp að leghálsinum. Örvun geirvörtunnar og fullnæging konunnar koma af stað legsamdráttum sem geta nægt til að hrökkva í gang og sæði inniheldur efni sem kallast Prostaglandín og hvetur til mýkingar leghálsins og samdrátta í legi. Einnig örvar tog og núningur í leggöngum þessi hormóna og prostaglandínáhrif þannig að ástarlíf hefur í alla staði góð áhrif.

Vona að þetta gangi allt saman vel hjá þér og þú verðir heppnari með ljósmóður í fæðingunni en á meðgöngunni.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir