Notkun verkjalyfja

Fyrirspurn:


Góðan dag,

Fyrir nokkrum árum greindist ég með sykursýki 2.  Keypti mér þar af leiðandi þrekhjól og hjólaði nær daglega í 3 ár, breytti um mataræði, léttist til muna og útskrifaðist af göngudeild.
Varð að hætta að hjóla, þar eð gömul bakmeiðsli tóku sig upp og við tók nudd og þessháttar, sem dugði þó skammt.
Hef síðan tekið skv. tekið Íbúfen. 2svar á dag, sem kemur mér í gegnum daginn.  Eftir nætursvefn og svo eftir að ég legg mig og sofna um miðjan dag eru verkirnir alverstir.
Einstaka morgna er ég svo kvalinn, að ég hef þá tekið 2 PANOCOD, sem ég var látinn hafa við sérlega miklum verkjum.  Vil þó alls ekki taka þessar töflur nema í neyðartilfellum, þar sem kódein inniheldur þær m.a.
Svo vill þó til að í þessum fáu erfiðu verkjum, hef ég í stað Íbúfen (600 mg.) , sem ekki verka á þessi ósköp, tekið 2 tbl.
Panocod og varð verkjalaus eftir skamma stund.
Spurningin  er, hvort öll þessi mg. af Íbúfen verki minna en Panocod, og hvort óhætt sé að taka 1 Panocod og 1 Íbúfen sama daginn t.d. vegna aukaverkana, sem gætu aukizt, og hvort annað lyfið sé skárra vegna á lags t.d. á nýru og lifur.

Kv.

Aldur:
71

Kyn:
Karlmaður

Svar:

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina,

Það eru  lífsgæði að vera verkjalaus, en það er mikilvægt að nota verkjalyf varlega.
Ibufen og Panocod eru ólík verkjalyf, Panocod er talsvert sterkara verkjalyf inniheldur tvö verkjastillandi lyf 500 mg parasetamól og 30 mg codein.
 
Ibufen er verkjastillandi og bólgueyðandi, hemur myndun prostaglandíns sem hefur meðal annars áhrif á bólgusvörun og verki.  600 mg af Ibufeni þrisvar til fjórum sinnum á dag er hámarksskammtur.  Við nýrnabilun þarf að minnka skammta og ekki má nota lyfið ef lifrarstarfsemi er skert eða nýrnasjúkdómur er fyrir hendi.  Notkun Ibufens að staðaldri getur leitt til sáramyndunar eða blæðingar í meltingarvegi.  Aukaverkun er hugsanleg truflun á starfsemi nýrna.
 
Við langtíma notkun parasetamóls er ekki hægt að útiloka hættu á nýrnastarfsemi.  Áhrif á lifur hafa komið fram.
Codein gerir Panocodið að sterkara verkjalyfi, en hætta er á ávana og fíkn vegna áhrifa á miðtaugakerfið.
 
Það getur verið gott  að nota lyfin saman eina ibufen og eina panocod, því þá næst breiðari verkun.  Það er betra að taka eina af hvoru lyfi en að auka skammtinn af hvoru lyfi fyrir sig.  Mikilvægt er að taka Ibufen með mat.

Með kveðju,

Sigríður P. Arnardóttir,
Lyfjafræðingur