Nýr fitubrennsluáburður – virkar hann?

Spurning:

Sæl.

Hér á Íslandi er kominn á markað fitubrennsluáburður sem hefur virka efnið
epidril í sér. Þetta er einkaleyfisvernduð formúla frá lyfjarisanum Klein
and Becker sem hefur verið vísindalega prófuð og á að virka gríðarlega vel
við að brjóta niður fitu á erfiðum stöðum eins og maga, rassi og lærum.

Þetta á að smjúga inn um húðina og losa um fituna í fitufrumunum eða
eitthvað álíka þannig að auðveldara er að brenna henni. Maður verður
náttúrulega að vera duglegur að fara í ræktina eftir á. En þeir segja að
þetta virki svo vel að ef maður sér ekki árangur innan 15 daga þá fær maður
endurgreitt.

Hvert er sannleiksgildið í þessu?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Ég hef heyrt um þennan „kraftaverka“ áburð.

Ég hef hins vegar ekki heyrt um nein tilfelli þar sem hann virkar til lengri tíma litið. Hér er um að ræða enn eina skyndilausnina. Ef það er raunin að þessi efni geta minnkað ummál ákv. líkamshluta hlýtur það að stafa af vökvatapi og mun sá vökvi koma strax aftur þegar hætt er notkun á áburðinum. Þetta getur ekki virkað vel né verið hollt til lengdar og getur þetta jafnvel haft þau áhrif að líkaminn sendir meira vökvamagn á þessi svæði til að bæta upp tapið og getur það valdið því að þessi svæði sem verið er að reyna að „fegra“ líta verr út eftir lengri tíma notkun. Hvað vitum við svo um langtíma áhrif þessara efna á líkamann? Það er einfaldlega ekkert sem kemur í stað þjálfunar og skynsamlegrar neyslu. Að mínu mati er ekki þess virði að vera að prófa að innbyrða og bera á okkur hin og þessi efni í þeirri von að það á einhvern hátt fegri útlit okkar. Það er margsannað að hreyfing fegrar okkur á ótal vegu og bætir heilsuna og byggir okkur upp á allan hátt. Ég mæli með skynsamlegu leiðinni….. engar skyndilausnir.

Kveðja,
Ágústa Johnson, Líkamsræktarþjálfari