Óæskilegir leikir ungra barna – hvað er til ráða?

Spurning:

Sæll.

Sonur minn tæplega 5 ára og vinkona hans jafnaldra voru í dag í einkennilegum leik þegar mamma hennar kom að þeim. Þá voru þau nakin að neðan og þegar mamman gekk á þau þá kom í ljós að þau höfðu verið í þannig leik að hann kyssti og sleikti á henni kynfærin og hún kyssti á rassinn á honum. Sonur minn hefur reyndar áður verið í svipuðum leik með vini sínum sem er 2 árum eldri,- og þá hafa þeir líka verið að setja tippið í rassinn!! Í þau skipti hefur það verið, að sögn sonar míns, að frumkvæði þess eldri og núna segja þau að þetta sé leikur sem þessi 6 ára hafi kennt þeim?? Ég vil ekki bregðast of harkalega við en þetta er samt ekki hegðun sem mér finnst æskileg. Ég tek fram að eftir að ég fann út leik hans og þess eldri þá bannaði ég honum hreinlega að leika þennan leik. En hvað er til ráða??

Bestu kveðjur.

Svar:

Sæl.

Ég er sammála þér að þetta er ekki æskileg hegðun barna.
Langflest börn ganga í gegnum það á þessum aldri að uppgötva líkamlegan mun kynjanna og finnst það spennandi. Þau fara þá gjarnan í leiki, sem ætlaðir eru til þess að skoða þennan mun og kallaðir eru „læknisleikir”. Þessi hegðun sem þú lýsir bendir hins vegar til þess að eitthvert barnanna hafi einhvers konar reynslu af svona kynlífi. Og hér er svo sannanlega um kynlífseftirlíkingu að ræða en ekki „læknisleik”. Hvort sú reynsla er bein, þannig að barnið hafi orðið fyrir slíkri reynslu frá hendi fullorðins aðila, eða óbein þannig að það hafi orðið vitni að svona hegðun eða séð hana í fjölmiðli, er erfitt að segja til um. Hins vegar er nokkuð ljóst að ef börn á þessum aldri fá einhverja vitneskju um að svona geri fullorðnir, þá er það spennandi, því þau eru einmitt að reyna að telja sjálfum sér og öllum öðrum trú um að þau séu fullorðin.

Ég ráðlegg þér að á eins varfærinn hátt og hægt er, reyna að komast að því hvaðan þessi reynsla er komin og hvers eðlis hún er. Jafnframt skalt þú banna hana, en einnig á varfærinn hátt, því eins og ég sagði, þá er þetta spennandi á þessum aldri og getur með ströngu banni orðið enn meira spennandi. Ef um óbeina reynslu er að ræða, eldist þetta af þeim sem spennandi hlutur og verður það ekki fyrr en eftir kynþroska aftur. Ef um beina reynslu einhvers barnsins frá hendi fullorðins einstaklings er að ræða, er um lögbrot og barnaverndarmál að ræða og slíkt ber að tilkynna barnaverndaryfirvöldum.

Það er gjarnan betra að segja börnum að eitthvað sé ekki fallegt eða fallega gert, frekar en að segja að eitthvað sé ljótt. Einkum ef um er að ræða einhverja hegðun, sem fullorðnir sýna en börnum er bannað.

Með von um gott gengi,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur