Of þung fyrir íþróttina

Spurning:

Sæll Ólafur.

Ég er ung stúlka sem þarf að léttast hratt útaf íþróttinni sem ég æfi, mig vantar hraða. Ég borða mjög hollt fæði t.d. Kellogs special K í morgunmat, skyr í hádeginu, hrökkbrauð í kaffitímanum og svo kvöldmat. Einnig borða ég mikið af ávöxtum. Ég borða ekkert brauð og engin sætindi. Samt virðist ég ekkert grennast. Ég er mjög stórbeinótt og er með einhverja vöðva. Ég er 170 cm há og 67-69 kg. Getur þú gefið mér eitthvað ráð?

Með kveðju,

Svar:

Komdu sæl.

Af þeirri lýsingu sem þú gefur varðandi fæðuval er ljóst að þú leitar í mat sem telst hafa lágt hitaeiningagildi miðað við saðningargildi. En það merkir að þú velur þér mat sem erfitt er að fitna af. Svo er nú reyndar einnig með brauðið sem þú af einhverjum ástæðum forðast. Þú segist vera á bilinu 67-69 kg, 170 cm og stórbeinótt. Þar sem þú ert stórbeinótt tel ég ekki fráleitt að ætla að þú sért í eðlilegri þyngd.

Ég veit að sumar íþróttagreinar krefjast þess að einstaklingurinn sé mjög léttur, jafnvel léttari en eðlislæg þyngd hans segir til um. Dæmi um slíkar íþróttagreinar eru fimleikar og langhlaup, s.s. maraþonhlaup. Það eina sem ég get sagt á þessari stundu er að ef þú ert að neyta tiltölulega fárra hitaeininga á dag (miðað við að þú ert í íþróttum), s.s. 2000 hitaeininga, án þess að léttast er það líkast til vegna þess að líkami þinn er í eðlilegri þyngd.

Ef það er reyndin þá eru eftirfarandi leiðir mögulegar til enn frekari léttingar: Að skera hitaeiningarnar verulega við nögl; að losa líkamann við mikið af vatni sem t.a.m. er auðvelt að gera með því að draga úr kolvetnaneyslu og borða mikið af próteinum og/eða nota örvandi efni eins og efedrín og amfetamín. Auðvitað ráðlegg ég engum manni að grípa til þessara örþrifaráða enda skaðsemi þeirra margsönnuð!!

Höfum ávallt í huga að forsenda næringarlegs heilbrigðis felst í fjölbreyttu fæðuvali og hófsemi þar sem hvorki er borðað of lítið eða of mikið.

Með kærri kveðju,

Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur