Of lágur blóðþrýstingur

Spurning:

Sæll.

Ég var í blóðþrýstingsmælingu og mældist með 100 yfir 70, svo efri mörk eru óeðlilega lág hjá mér.

Ég er búin að finna fyrir svima undanfarið, sérstaklega eftir æfingar.
Hvað er til ráða?

Kær kveðja.

Svar:

Kæri spyrjandi.

Þessi blóðþrýstingur sem mældist hjá þér er alveg eðlilegur. Það er
æskilegt að hafa sem lægstan blóðþrýsting. Þeir sem eru svo heppnir að hafa
lágan blóðþrýsting fá miklu síður fylgikvilla blóðþrýstingshækkunar, t.d.
slag (heilablóðfall) eða kransæðastíflu.
Við vissar kringumstæður getur blóðþrýstingur fallið óeðlilega mikið og
valdið svima eða yfirliði, t.d. ef viðkomandi stendur snögglega upp, ef
hann verður fyrir geðshræringu, við blóðtöku, við að sjá blóð o.s.frv.
Mér þykir ekki líklegt að þessi svimi eftir æfingar stafi af of lágum
blóðþrýstingi. Best væri sennilega að þú leitaðir til þíns
heilsugæslulæknis og létir athuga þig hjá honum t.d. hvort þú værir
blóðlítil.

Með kveðju,
Nikulás Sigfússon, dr.med, fráfarandi yfirlæknir Rannsóknarstöðvar
Hjartaverndar