Offita, frjósemi og meðganga

Fyrirspurn:

Góðan daginn,

Ég og kærastinn erum farin að pæla í að reyna að  eignast barn, hætti á pillunni í júní. Málið er að ég er of þung, já eða of feit, og er að pæla hvort það hafi mikil áhrif á að verða þunguð. Einnig hvað er gott að gera til að auka líkur á þungun, er það mjög slæmt að vera of feit á meðgöngu og er það mjög slæmt fyrir barnið, er rúm 100+ og þyngdarstuðull er 34, endilega ef einhver getur ráðlagt mér, við erum voða spennt og viljum samt hafa allt á hreinu?

Kær kveðja,

ég og minn

Svar: 

Sæl,

Það getur tekið 6-12 mánuði að verða ófrísk eftir að hafa verið á pillunni – tekur líkamann tíma að komast í jafnvægi eftir hormónana sem eru í henni (mislangan samt).  Þó að það sé ekki útilokað að þú verðir ófrísk fyrr þá er um að gera að nota tímann til að bæta heilsuna.  Þú ert eftir því sem þú segir alltof þung og það getur haft áhrif á það að verða þungun, meðgönguna og fæðinguna.

Of þungar konur eiga stundum erfiðara með að vera þungaðar því það að vera of þungur getur haft áhrif á efnaskipti líkamans og hormónajafnvægi. 

Ennig getur það aukið líkur á vandamálum á meðgöngu t.d. meðgöngusykursýki, vandamálum frá stoðkerfi og þess háttar.  Varðandi fæðinguna þá getur það orsakað vandamál í fæðingu – að fæðingin verði erfiðari, bæði vegna þess að móðirin á erfiðara með að hreyfa sig í fæðingunni og kannski líka það að barnið gengur ekki eins vel niður í grindina (því jú ef maður er of feitur þá er líka fita innan á líffærum t.d. grindinni og því minna pláss).

Þetta eru svona einfaldar staðreyndir og ekki gerðar til að hræða þig heldur bara að þú vitir þetta.  Allt er þetta mjög persónubundið og sumar þungar konur eru mjög duglegar að hreyfa sig, mjög hraustar og lenda ekki í neinum vandamálum.

En ég myndi ráðleggja þér að nota næstu mánuði til að reyna að létta þig og undirbúa þig undir meðgöngu og fæðingu.  Hreyfa þig reglulega, taka vítamín (með fólinsýru), borðaðu fjölbreytt (sem minnst af skyndibita) og reyndu þannig að losa þig við einhver kíló – allt er betra en ekkert.

Gangi þér vel,

Kristín Svala Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir