Ofnæmi fyrir tóbaksreyk?

Spurning:
Getur maður haft ofnæmi fyrir sígarettureyk og hvernig lýsir það sér þá?

Svar:

Ofnæmi fyrir tóbaksreyk.

Það er hægt að fá ofnæmi fyrir öllum sköpuðum hlutum og þar er tóbaksreykur engin undantekning.

Í hverri sígarettu eru yfir 4.000 eiturefni og þessi efni fara öll í reykinn sem kemur frá sígarettunni og reyknum frá reykingarmanninum sjálfum. Þeir sem anda þessum reyk að sér fá öll eiturefnin ofan í sig, þó í mun minni mæli en reykingarmaðurinn. En það þola alls ekki allir þessi eiturefni og helstu einkenni um óþol við tóbaksreyk eru:

Útbrot og kláði. Einnig eru slímhúðir mjög ertanlegar fyrir tóbaksreyk og hjá þeim sem hafa ofnæmi myndast bólgur í slímhúðunum, þetta ertir öndunarveginn og slímmyndun eykst þar. Erting í slímhúð augna og nefs veldur aukinni táramyndun og nefstíflu. Einnig geta komið einkenni frá neðri öndunarvegum vegna vöðvasamdráttar í berkjum lungna sem getur leitt til andþyngslis (astmakast).

Ef þú telur þig vera með ofnæmi eða óþol fyrir tóbaksreyk, þá skaltu halda þig fjarri þeim stöðum þar sem reykt er á.

Með kveðju,
Jóhanna S. Kristjánsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Ráðgjöf í reykbindindi