Ófrísk og hef áhyggjur af fósturláti?

Spurning:
Góðan daginn. Mig langaði að forvitnast aðeins. Ég var að komast að því að ég er ófrísk, komin c.a. 6 vikur. Ég hef verið að stríða við sjúkdóminn legslímuvillu, getur það haft einhver áhrif á fóstrið? Get ég átt á hættu að missa fóstrið út af þessum sjúkdómi? Hef farið í tvær aðgerðir út af þessu og gengið vel í báðum en þetta kemur alltaf aftur. Svo finnst mér svo skrítið ég fæ af og til allan daginn smá kviðverki eða öllu heldur bara svona seiðing og þess á milli finn ég ekki neitt er líka með spennu í brjóstunum en aðallega á kvöldin. Svo er það eitt í viðbót, ég er nýkomin úr brjóstastækkun (sílikon) ca.1 mán. síðan er það allt í lagi?  Er einhvað svo hrædd um að ég eigi einhvað meiri áhættu en aðrar konur að missa fóstrið?  
Með fyrirfram þökk..

Svar:
Vertu ekkert að hafa áhyggjur af fósturláti – það er alveg eðlilegt að finna fyrir smá túrverkjaseiðingi af og til alla meðgönguna, sérstaklega í upphafi. Brjóstaspennan er einnig það sem flestar konur finna vel í upphafi meðgöngu. Það er hins vegar verra með sílikonið í brjóstunum því ef örin hafa ekki verið fullgróin getur hlaupið í þetta ofholdgun á meðgöngunni. Hún gengur þó oftast til baka eftir að barnið er fætt. Það er mjög misjafnt hversu mikið konur finna fyrir sílikoninu í brjóstunum þegar þær hefja brjóstagjöf og sumum konum gengur illa að ná upp almennilegri mjólkurmyndun eftir brjóstastækkun vegna þrýstingsins frá púðunum. Það fer þó eftir stærð þeirra og staðsetningu og ekki annað að gera en að láta slag standa og gefa brjóst. Gangi þér vel.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir