Ófrjósemi vegna hettusóttar?

Spurning:

Sæll.

Ég er 26 ára og ég og kærastan mín höfum verið að reyna að eignast barn, en það hefur gengið illa. Málið er að ég fékk hettusótt þegar ég var 17 ára, frekar svæsna og bólgnaði mikið upp vinstra megin í hálsinum. Ég hef heyrt að ef maður fær hettusótt svona seint að þá séu miklar líkur á því að maður verði getulaus. Er eitthvað til í því? Kærastan mín var búin að vera á pillunni í 6 ár áður en hún hætti því fyrir um 1 1/2 ári síðan. Getur þessi tími á pillunni haft einhver áhrif?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæll.

Það er mjög einfalt að gæta að þinni frjósemi með sæðisprófi. Maður verður ekki getulaus heldur ófrjór í versta falli af hettusótt og samt er það sjaldgæft. Langtímanotkun pillu veldur ekki ófrjósemi. Þið þurfið að komast undir handleiðslu læknis sem fylgir ykkur eftir í ófrjósemisrannsókn.

Gangi ykkur vel.
Kveðja,
Arnar Hauksson dr. med.