Ófrjósemisaðgerð án samþykkis?

Spurning:

28 ára – kona

Sæl, er hér ein ráðalaus. Er með spurningu: er hægt að láta taka mann úr sambandi án manns leyfis? Hvernig get ég komist að því, með því að fara til kvensjúkdómalæknis og láta gera einhver test til að komast að því hvort ég hafi verið tekin úr sambandi? Er með manni núna og langar að eignast barn með honum,og við erum búin að vera að reyna í þó nokkurn tíma og ekki verð ég ólétt. Lenti í því að fara í fóstureyðingu 2004 og er farin að spá hvort foreldrar mínir hafi látið taka mig úr sambandi þá, án þess að láta mig vita af því! Með von um svar.. Kveðja ein ráðalaus og áhyggjufull.

Svar:

Sæl og blessuð og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Mér finnst afskaplega ótrúlegt að foreldrar þínir hafi getað látið taka þig úr sambandi að þér forspurðri.

Í lögum um ófrjósemisaðgerðir segir að viðkomandi verði að vera orðin 25 ára og óska eindregið og að vel íhuguðu máli eftir aðgerðinni. 

Sérstaklega skipaður lögráðamaður getur óskað eftir leyfi til að láta framkvæma aðgerðina á öðrum, ef fyrir hendi er alvarlegur geðsjúkdómur, mikill greindarskortur og viðkomandi er varanlega ófær um að gera sér grein fyrir afleiðingum aðgerðarinnar.

Lögin um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir getur þú lesið á heimasíðu alþingis  

http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/lagasofn/132a/1975025.html&leito=Fóstureyðing

(varðandi ófrjósemisaðgerðir lestu III. Kafla laganna)

Í lögum um meðferð upplýsinga í sjúkraskrá segir að lækni sé skylt að sýna sjúklingi eða umboðsmanni hans sjúkraskrá og ef læknir neitar því þá getur sjúklingur leitað til landlæknis til frekari afgreiðslu,

Um þetta getur þú lesið á heima síðu alþingis

 http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?txti=/wwwtext/html/lagasofn/132a/1997074.html&leito=Réttindisjúklinga#word2

 (varðandi aðgang að sjúkraskrá lestu IV. Kafla)

Samkvæmt þessum lögum er alveg ljóst að foreldrar þínir hafa ekki getað látið taka þig úr sambandi án þess að þú hafir gefið til þess leyfi.  Hafðu samband við sjúkrahúsið þar sem þú fórst í fóstureyðinguna og óskaðu eftir því að fá aðgang að sjúkraskránni þinni.

Bestu kveðjur og ósk um velgengni,

Þórgunnur Hjaltadóttir,

Hjúkrunarfræðingur og ritsjóri doktor.is