Ógleði, brjóstsviði, maga- og bakverkir.

Góðan daginn.
Ég er ekki eins og ég á að mér að vera þessa dagana, finn að það er eitthvað að en átta mig ekki á hvað ég get gert eða hvert ég á að leita.
Ég er með stoðkerfisvanda ( neðstu hryggjarliðirnir spengdir) og aldrei alveg verkjalaus en mismiklir verkir og þegar þeir verða slæmir þá gengur það yfirleitt yfir á þremur til fjórum vikum.
Nema núna hef verið óvenju slæm síðan í júní í sumar og það virðist ekkert vera á förum. Ég tek Tradolan þegar ég er sem verst og tek ekki fleiri töflur en tvær á sólarhring. Síðustu þrjár vikurnar er ég búin að velta því fyrirmér hvort það sé eitthvað annað en bakið sem sé að plaga því mér fór að verða flökurt af verkjalyfjunum og eins af Parkodin Forte sem ég skipti yfir í. Er semsagt í þrjár vikur búin að vera óglatt alla daga (ekki ófrísk) með brjóstsviða (tek eitthvað við því tvisvar yfir daginn og stundum á næturna, það virkar u.þ.b. Í 60 mín) mjög tíðar klósettferðir og eins og það hreinlega sé stöðugt þrýst á þvagblöðruna því ég þarf alltaf að pissa. Ekki sárt að hafa þvaglát og ég skilaði inn sýni fyrir viku þar sem niðurstaðan var: ekki þvagfærasýking. Tilfinning í maganum (neðarlega samt) eins og ég sé með stein í honum. Stundum verkir og þá neðarlega. Fékk Esomeprazol 20 mg fyrir viku hjá heilsugæslulækni og átti svo að koma eftir mánuð ef ég yrði ekki orðin góð. Þá yrði skoðað með að panta magaspeglun ef ástæða væri. Finn enga breytingu (sennilega of stuttur tími liðinn)
Þegar ég hef verið verst í bakinu gegnum árin hefur verið best fyrir mig að liggja en núna er ég ómöguleg í bakinu (og ógleði og nábýturinn verri) þegar ég ligg og næturnar verstar hvað það varðar.
Ég borða nokkrar litlar hollar máltíðir á dag, drekk mikið vatn, hreyfi mig þokkalega vel og lífi heilbrigðum lífsstíl.
Mig vantar upplýsingar um hvert ég á að snúa mér og leita, mér finnst heilsugæslan ekki sinna málum nógu vel núna svo hvaða sérgreinalæknis ef þá einhvers ætti ég að leita til o.s.frv.
Kærar þakkir

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þar sem vandamál þín eru greinilega fjölþætt er heimilislæknir sá sem væri best til þess fallinn að halda utan um þig og þín heilsutengdu vandamál. Hann/hún getur svo vísað þér áfram til viðeigandi sérfræðinga eins og meltingarsérfræðings eins og mér sýnist að standi til miðað við fyrirspurnina þína.

Pantaðu þér tíma hjá heimilislækninum þínum og vertu með niðurskrifað allt þetta sem er að angra þig og fáðu hann/hana til þess að fara vel yfir hvert og eitt atriði og setja fram eitthvað plan svo það sé hægt að fara markvisst yfir vandamálin og finna lausn ef hún er til.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur