Ólétt á pillunni?

Hæhæ!

Nú er ég alveg búin að google-a eins og ég get og leita en finnst ég ekki finna nógu skýr svör við vangaveltum mínum og áhyggjum.
Ég er tvítug og hef miklar áhyggjur af því að ég sé ólétt. Svona líður mér ansi oft, þó svo að ég fari á túr, en að verða ólétt er eitthvað sem ég vil allra síst að hendi mig núna. Ég er í sambandi svo ég stunda kynlíf reglulega. Ég hef verið á pillunni í u.þ.b. 4 ár en hef núna verið á Yasminelle í 1 ár. Ég passa mig alltaf að taka pilluna á svipuðum tíma dags og held ég hafi aldrei gleymt henni.

Fyrir um mánuði síðan tók ég óléttupróf sem kom út neikvætt, bara til að vera alveg 100% um að vera ekki ólétt. Þetta hef ég gert nokkrum sinnum, að taka próf, þó svo að ég fari á túr. Einnig seinustu daga hef ég verið á milliblæðingum sem veldur mér áhyggjum líka.
Ég þekki líka til nokkurra stelpna sem hafa verið á pilllunni og tekið hana rétt en samt sem áður farið á túr. Þar með hafa þær áttað sig svo á því að þær væru óléttar þegar þær voru komnar of langt á leið, og þar með ekki haft neitt val að eiga barnið eða ekki.

Eruð þið með einhver ráð fyrir mig varðandi hvað ég gæti gert til að vera ekki svona hræðilega stressuð með þetta?
Mér finnst þetta stress jafnvel stundum eyðileggja kynlíf fyrir mér. Hvað er til ráða?
Get ég pantað tíma hjá lækni til að athuga og vera alveg viss að ég er ekki ólétt? Treysti því oft ekki að taka aðeins óléttupróf heima.

Takktakk!

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Vandamál þitt virðist vera að þú ert svo stressuð yfir því að verða ólétt að þú nærð ekki að treysta neinu, hvorki getnaðarvörnum né blæðingunum sem ættu að segja þér að þú sért ekki ólétt. Pillan er mjög örugg getnaðarvörn ef hún er tekin rétt eins og þú virðist vera að gera og reglulegar mánaðarlegar blæðingar eru mjög skýr skilaboð um að konan sé ekki ólétt.

Mínar ráðleggingar til þín eru að hætta að hugsa stöðugt um þetta og hætta að taka þungunarpróf ef þú hefur tekið pilluna rétt allan mánuðinn og eðlilegar blæðingar verða í pilluhléi. Ég geri mér grein fyrir því að það verður ekki auðvelt fyrir þig til að byrja með þar sem þú virðist vera orðin föst í þessum hugsunum en ef þessi streita er farin að hafa truflandi áhrif á kynlífið sem er auðvitað mikilvægur þáttur í sambandi þínu við kærastann þá þarftu að reyna að vinna með þetta og læra að slaka á gagnvart þessu. Ef þú nærð ekki að vinna með þetta sjálf getur þú pantað þér tíma hjá heimilislækni og rætt þessi mál við hann.

Gangi þér vel