Ólétt eftir að lykkjan var tekin?

Spurning:

Sæl Dagný

Þann 16. ágúst sl. fór ég í keiluskurð. Ég var með 3. stigs breytingar og gekk aðgerðin vel. Hormónalykkjan var fjarlægð og var mér sagt að tíðir ættu að koma svo á eðlilegum tíma. Áður en ég fór í aðgerðina höfðu síðustu tíðir verið í lok júlímánaðar.
Ég er 27 ára 3ja barna móðir og gerði þungunarpróf fyrir viku sem var neikvætt. Enn hafa engar tíðir komið og er ég orðin frekar áhyggjufull.
Ég hef alltaf haft reglulegar blæðingar og engin vandamál komið upp í kjölfar fæðinga. Ég þurfti reyndar að fara aftur niður á Kvennadeild vegna þess að það kom fersk blæðing frá keiluskurðssárinu á 3ja degi og var þá borið eitthvað efni á leghálsinn til að stöðva blæðinguna. Ég kláraði lyfjaskammtinn minn eftir aðgerðina en það lyf hét Cyklapron eða eitthvað í þá áttina.
Hvað getur þú ráðlagt mér að gera?

Ein áhyggjufull.

Svar:

Sæl

Þú getur þess ekki hvort lykkjan var tekin áður en aðgerðin var framkvæmd eða í leiðinni. Mér reiknast til að ef þú hefur haft blæðingar í lok júlí hefðir þú getað orðið þunguð rétt áður en þú fórst í keiluskurðinn, þ.e. ef lykkjan var tekin áður en aðgerðin var gerð, og værir þá núna komin 7 – 8 vikur á leið. Samkvæmt því hefði þungunarpróf sem gert var fyrir viku átt að vera jákvætt. Hafi lykkjan verið tekin í aðgerðinni eru þó ekki miklar líkur á að þú sért þunguð. Þó er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að eitthvert rugl hafi orðið á blæðingunum við streituna sem fylgdi aðgerðinni og þú þá orðið þunguð eftir að aðgerðin var gerð. Prófaðu að gera aftur í þungunarpróf núna og ef það er neikvætt en blæðingar láta standa á sér, láttu þá lækni líta á þig. Þú þarft náttúrulega líka að ræða strax við lækninn þinn ef þú ert þunguð.

Með von um að þetta fari allt vel,

Dagný Zoëga, ljósmóðir