Ólétt og skíthrædd við að eiga barnið ?

Spurning:
Hæhæ!
Ég er ólétt og ég er alveg skíthrædd við það að eiga barnið. Ég er strax farin að kvíða fyrir því að þurfa að fæða barnið á eðlilegan hátt.  Ég er ekki mjög gömul og kannski svolítið ung til þess að eiga barn en það gerðist bara og ég verð bara að taka því og er alveg búi að sætta mig við það og ég fæ aðstoð frá foreldrum mínum og vinum.   Ég komst ekki að því fyrr en ég var komin rúmar 19 vikur á leið.   Ég er með skakka mjaðmagrind sem er bara fæðingargalli og svo er ég líka með brjósklos og fæ oft í bakið, sérstaklega ef ég er að reyna eitthvað á mig eða lyfta einhverju þungu.   Ég reyni nú að gera ekki mikið af því núna.
Ég var að spá í því hvort að það væri einhver möguleiki fyrir mig að fá að fara í keisaraskurð?   Eða er það ekki gert nema að það sé spurning upp á líf og dauða?   Hvernig á fæðing eftir að ganga ef maður er með skakka mjaðmagrind?   Getur það ekki verið hættulegt fyrir barnið?

Svar:
Keisaraskurður er stór aðgerð og ekki gripið til hans nema þess sé þörf. Það er einungis í mjög alvarlegum undantekningartilvikum sem keisaraskurður er ákveðinn fyrirfram með fyrsta barn. Þótt mjaðmagrind sé skökk getur innri gerð hennar verið í lagi og erfiðleikar við fæðingu ekki líklegri en hjá hverri annarri konu. Vitaskuld er gripið til keisaraskurðar ef sýnt þykir að móðir eða barn séu í hættu en besti mælikvarðinn á hvort fæðing gangi er að láta á það reyna.

Þar sem þú ert greinilega mjög kvíðin vegna fæðingarinnar væri réttast fyrir þig að ræða mjög ítarlega við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni og reyna að henda reiður á það hvað það er helst sem þú óttast. Eru það hríðarverkirnir eða grindarbotnsáverkar eða brýst ósætti þitt við meðgönguna og móðurhlutverkið kannski út á þennan hátt? Reyndu að fá botn í þetta og bót á líðaninni áður en nær dregur fæðingunni þannig að þú sért sæmilega sátt.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir