Önnur meðganga og sýkursýki?

Spurning:
Ég er 23 kvk úti á landi. Ég hef verið með sykursýki síðan ég var 1 árs. Ég á strák síðan í október og ég var að velta fyrir mér hvort ég geti ekki lagt í aðra meðgöngu eða er eitthvað sem mælir á móti því? Er reyndar að vinna úr breytingum með nýtt langvarandi insulin en það er allt í áttina. Ég hef alltaf verið hraust svo ég vildi bara fá að vita hvort það sé eitthva stórvægilegt sem mælir á móti því.

Svar:
Sæl.
Grundvöllur þess að ganga með barn þegar kona er með sykursýki er að hún sé í góðu blóðsykursjafnvægi og njóti öruggs eftirlits í meðgöngu. Það er ekki ráðlegt að láta líða skamman tíma milli barna þar sem líkami konunnar þarf að fá gott tækifæri til að jafna sig eftir meðgönguna, fæðinguna og brjóstagjöfina og blóðsykursstjórnun þarf að vera orðin alveg örugg. Sykursýki er nógu stórvægileg ástæða til að mæla móti tíðum þungunum þannig að ef þú ert að hugleiða nýja barneign nú þegar myndi ég ráða þér frá því – láta líða a.m.k. 2 ár milli þungana.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir