Ör í andliti eftir bólur?

Spurning:
Halló!
Mig langar að beina fyrirspurn minni til lýtalæknis. Þannig er mál með vexti að ég er með mikið af örum í andlitinu eftir að hafa verið með hræðilega mikið af bólum. Ég byrjaði að fá bólur þegar ég var 12 ára en er að nálgast þrítugt í dag. Ég er nokkuð góð af bólunum í dag, fæ svona eina og eina en mér finnst húðin á mér mjög illa farin og þetta hvílir þungt á mér. T.d. finnst mér mjög óþægilegt þegar fólk horfir á mig því að mér finnst alltaf eins og það sé að skoða húðina á mér. Ég byrjaði að lagast í húðinni eftir að ég fór á Roaccutan þegar ég var 17 ára en hef þurft að taka tvo þriggja mánaða kúra aftur eftir það. Ég er búin að prófa ávaxtasýrur, fór í meðferð hjá húðsjúkdómalækni og hann setti að mig minnir 70% sýru á andlitið á mér. Mér fannst ég ekkert hafa upp úr því nema að ég fékk mikið af bólum eftir það. Ég er búin að prófa að fara í Power Peel tíma (þegar tíminn kostaði 12 þús.!!) en get ekki sagt að ég hafi uppskorið árangurinn sem ég vænti. Ég er á getnaðarvarnapillu fyrir konur með bóluhúð og kannski er það það sem heldur bólunum niðri. Einhvern tímann heyrði ég að lýtlæknar framkvæmdu húðskröpun og mig langar mikið til að fá upplýsingar varðandi það eða annað sem hægt væri að gera til þess að hjálpa mér. Einnig langar mig þá að vita um kostnað sem fylgir og þá hvort tryggingarnar borgi hluta af þessu eða hvað. Ég er vægast sagt orðin þreytt á þessu og finnst þetta hafa haft mikil áhrif á sjálfsmyndina hjá mér. Með fyrirfram þökk Ein örvæntingarfull

Svar:
Komdu sæl.
Stundum er hægt að gera laser á andliti til að bæta ör þó erfitt geti verið að losna alveg við þau. Best er að þú komir að stofu svo ég geti séð þig og við getum talað betur saman.

Kær kveðja.
Ottó Guðjónsson, lýtalæknir