Óreglulegar blæðingar

Fyrirspurn:

Skrýtin spurning kannski en…..
Getur það að  langt sé um liðið síðan "náin kynni" við hitt kynið hafi átt sér stað  orsakað óreglulegar blæðingar ?
þá erum við að tala um frekar langan tíma. Mér finnst ég hafa lesið þetta einhversstaðar, en finnst það nú frekar ólíklegt en hver veit hvað getur haft áhrif á hormóna ?
Eða gæti verið að um byrjun á breytingaskeiði væri að ræða ?

Fyrirfram takk fyrir svör, kær kveðja G

Svar:

Komdu sæl og þakka þér fyrir spurninguna.

Hún er alls ekki skrýtin, svo við höfum það á hreinu, enda allar spurningar velkomnar inn á Doktor.is.
Það er ýmislegt sem getur valdið truflun á blæðingum kvenna og algengast er að einhvers konar ójafnvægi kynhormóna sé sökudólgurinn. Það er hins vegar ekki mögulegt að skortur á kynferðislegum samskiptum við karlmann valdi truflun á blæðingum. Spáðu bara í allar einhleypu konurnar, allar lesbíurnar og allar ungu stúlkurnar sem hafa reglulegar blæðingar án þess að koma nokkurn tíma eða örsjaldan nálægt karlmanni í kynferðislegum tilgangi.
Reglulegar blæðingar eru merki um almennt líkamlegt heilbrigði hjá konu en truflun á þeim getur gefið til kynna að eitthvað sé að. Reyndar geta strjálar og minnkandi blæðingar hjá konu sem komin er yfir fertugt verið merki um að tíðahvörf séu farin að nálgast. En það eru ótal margar aðrar ástæður sem gætu legið að baki s.s. streita, breytingar á líkamsþyngd, lyfjanotkun eða ýmiss konar sjúkdómar. Ég legg til að þú heimsækir góðan kvensjúkdómalækni og ræðir málin.

Með kærri kveðju,
Ragnheiður Eiríksdóttir
hjúkrunarfræðingur