Óreglulegar blæðingar

Spurning:

Sæll Arnar.

Ég er 23 ára gömul og hef núna haft blæðingar í 10 ár. Vandamálið er að þær hafa frá fyrstu stundu verið óreglulegar og hefur 2svar liðið allt upp í ár á milli blæðinga. Ég hef 2svar leitað til kvensjúkdómalækna vegna þessa og farið í allskonar próf og ekki komið neitt út úr þeim, allavega ekkert sem bendir til hormónaskorts eða þvíumlíks. Hvorugur læknanna virtist geta gefið mér nein svör um hvað vandamálið væri, annar sagðist að vísu ekki telja að þetta mundi koma í veg fyrir barneignir. Báðir vildu þeir setja mig á pilluna, sem ég fór og eftir og tók í nokkur ár, en hætti fyrir tveimur árum þar sem ég vildi gefa líkamanum færi á að sanna sig. Ég get heldur ekki séð hvernig pillan leysir það vandamál að ég fæ ekki blæðingar, þó svo að mér finnist hún góð sem getnaðarvörn.
Nú er svo komið að ég er farin að hafa verulegar áhyggjur af þessu, þ.e. ég hef áhyggjur af því að þetta muni koma til með að hafa áhrif á barneignir og frjósemi mína. Getur þú gefið mér einhverjar upplýsingar um hvað kunni að vera að? Ég hef satt best að segja ekki áhuga á að leita aftur til sömu lækna sem virðast ekki geta gefið mér nein svör.

Með kærri þökk

Svar:

Kæri fyrirspyrjandi.

Það eru nokkur atriði sem þarf að rannsaka hjá stúlku eins og þér og ég reikna með að læknarnir þínir hafi gert það. Ef þar kemur allt gott út, ertu í hópi kvenna sem hafa sjaldan blæðingar og egglos. Það þýðir ekki sama og ófrjósemi, en hins vegar getur þú þurft að fá lyf til þess að verða þunguð ef þú vilt að það gerist í einum grænum. Þess vegna er oft gott að leggja niður allar varnir þegar þér er orðið sama þó þú yrðir þunguð og láta á það reyna hvort þú verðir bara ekki þunguð án nokkurrar utanaðkomandi hjálpar. Það gerist jafn oft eins og þegar aðstoðar er þörf. Ekki örvænta, engin ástæða. Ég get ekki svarað af hverju læknarnir þínir uppýstu þig ekki um orsakir eða afleiðingar, en mér sýnist sem þeir hafi rannsakað þig vel.

Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Arnar Hauksson, kvensjúkdómalæknir