Óreglulegur hjartsláttur?

Spurning:

Sæll.

Ég er tæplega þrítug. Bræður mínir tveir og móðir hafa öll fengið kransæðastíflu.

Fyrir um tveimur árum fór ég loks til hjartalæknis, eins og mér var uppálagt að gera þegar annar bróðir minn fékk sitt áfall. Hjartalæknirinn gaf mér góða einkunn en sagði að ég væri með óreglulegan hjartslátt. Hann sagði ekkert meira um það, annað en að það gæti verið vegna þess að ég væri stressuð akkúrat á þeirri stundu sem hann hlustaði og okkur fór ekkert meira á milli með það. Málið er bara að ég hafði í langan tíma á undan fundið fyrir þessu annað slagið og hef gert síðan. Mest finn ég fyrir þessu þegar ég er að fara að sofa og er undir álagi.

Er þetta eitthvað til hafa áhyggjur af – eða er þetta allt í lagi?

Svar:

Sæl.

Það er nokkuð algengt að fólk fái svokölluð aukaslög (extrasystólur) og
eftir lýsingu þinni er líklegt að þú sért að fá svona aukaslög.

Oftast
finnur fólk fyrir þessu í hvíld t.d. þegar það ætlar að fara að sofa. Svona
aukaslög eru í sjáflu sér alveg meinlaus en geta auðvitað verið óþægileg ef
mikið er um þau. Vissir þættir vilja auka á þau t.d. streita, reykingar,
kaffi- og kókdrykkja. Vafalaust þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur af
þessu. Vegna ættarsögu þinnar er skynsamlegt að þú látir fylgjast vel með
helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóma, reykir ekki, látir mæla t.d.
blóðþrýsting, blóðfitu og blóðsykur á 2-3 ára fresti.

Kveðja,
Nikulás Sigfússon, læknir í Hjartavernd