Óreglulegur hjartsláttur á meðgöngu?

Spurning:
Ég er komin 33 vikur á leið og á von á mínu fyrsta barni. Allt hefur gengið eðlilega fyrir sig og ljósmóðurin verið mjög ánægð með mig á meðgöngunni. Nú síðast þegar ég fór í mæðraskoðun heyrði hún hinsvegar einhverskonar aukaslög eða óreglulegan hjartslátt hjá barninu. Hennar viðbrögð voru þau að þetta væri allt í lagi og sagði okkur að hafa engar áhyggjur. Ég vildi hinsvegar fara strax í monitor og fá línurit yfir hjartslátt barnsins, þ.e. tíðni hjartsláttsins og var fæðingarlæknir sem skoðaði þær niðurstöður. Hún sagði að allt væri eðlilegt með línuritið. Mig langar til að vita hvort ástæðulaust sé að vera með einhverjar áhyggjur yfir þessu og e.t.v. fræðast eitthvað nánar um málið.

Með von um að hægt verði að eyða áhyggjum mínum með skjótum svörum.

Svar:
Þér er óhætt að trúa ljósmóðurinni þinni og lækninum sem skoðaði hjartsláttarritið – svona brokkgengur hjartsláttur hjá fóstri á þessum tíma þroskaferilsins er töluvert tíður og sjaldnast nokkuð til að hafa áhyggjur af. Þessi aukaslög og óregla á oftast rætur að rekja til vanþroska í rafkerfi hjartans og fóstrið vex yfirleitt upp úr þessu fyrir 38. viku. Við fáum öll einhvern tíman svona aukaslög og þau gera okkur ekkert til og við tökum sjaldnast eftir þeim. Það er bara af því að verið er að hlusta hjartað sem þetta uppgötvast. Svo þú skalt ekkert vera að stressa þig á þessu – ljósmóðirin þín fylgist með krílinu þínu áfram og sannaðu til þetta lagast fljótlega.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir